Fréttir


  • Skipulagsstofnun_heimsokn_02_lit

16.12.2021

Innviðaráðherra heimsótti Skipulagsstofnun

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, heimsótti starfsfólk Skipulagsstofnunar í húsakynnum stofnunarinnar í Reykjavík í morgun. Um tímamótaheimsókn var að ræða en Skipulagsstofnun færðist nýverið frá umhverfisráðherra til innviðaráðherra eftir að hafa heyrt undir umhverfisráðuneyti í þrjá áratugi. Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, bauð nýjan ráðherra skipulagsmála velkominn en auk hans voru með í för þau Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri og aðstoðarmenn ráðherra, Ingveldur Sæmundsdóttir og Sigtryggur Magnason.

Sigurður Ingi ávarpaði starfsfólk Skipulagsstofnunar og rifjaði upp veru sína í sveitarstjórn í Hrunamannahreppi. Skipulagsmál væru órjúfanlegur þáttur í starfi sveitarstjórna og þar hafi hann kynnst fjölbreyttum og krefjandi verkefnum á sviði skipulagsmála. Ráðherra sagðist einnig þekkja starf Skipulagsstofnunar vel frá þeim tíma þegar hann var umhverfisráðherra um tæplega tveggja ára skeið.

Skipulagsstofnun_heimsokn_03

Ráðherra fundaði síðan með forstjóra og stjórnendum Skipulagsstofnunar þar sem farið var yfir verkefnin fram undan.

„Það var afskaplega ánægjulegt að hitta starfsfólk Skipulagsstofnunar sem vinnur mikilvægt starf. Við hlökkum til að eiga samvinnu við stofnunina um að efla málaflokkinn enn frekar. Nú verða húsnæðis- og skipulagsmál í sama ráðuneyti og samgöngur, byggðamál og málefni sveitarfélaga. Markmið okkar er að samhæfa áætlanir í þessum málaflokkum til að einfalda ferla og bæta þjónustu við samfélagið. Við viljum tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögum, auka stöðugleika á húsnæðismarkaði og að áætlanir í málaflokkunum séu í þágu byggðar og loftslags,“ sagði Sigurður Ingi.

Skipulagsstofnun_heimsokn_01

Skipulagsstofnun hefur fagnað því á þessu ári að 100 ár eru liðin frá samþykkt fyrstu laga um skipulagsmál hér á landi. Þann 27. júní árið 1921 staðfesti ríkisráð Íslands fyrstu lög um skipulagsmál hér á landi, lög nr. 55/1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa.

Þessi frétt var unnin sameiginlega af fulltrúum innviðaráðuneytis og Skipulagsstofnunar.