Fréttir


  • Kennimerki Samorkuþings 2022

10.5.2022

Innviðir, auðlindanýting og skipulagsmál

Ávarp Ásdísar Hlakkar Theodórsdóttur, forstjóra Skipulagsstofnunar á Samorkuþingi 9. maí 2022.

Innviðir, auðlindanýting og skipulagsmál. Hvað er um þá þrenningu að segja? Þar vil ég fyrst víkja að loftslagsmálum. Í þeim efnum er dagskipun okkar allra, í dag og alla daga í fyrirsjáanlegri framtíð, skýr og afdráttarlaus. Markmið um kolefnishlutleysi þarf að vera leiðandi í allri okkar ákvarðanatöku um landnýtingu. Sama gildir um áherslu á nýtni og hringrásarhugsun.

En þótt þessi mikilvægu markmið séu sett í forgrunn í skipulagsmálum, þýðir það ekki að aðrir hagsmunir og sjónarmið séu látin lönd og leið. Við þurfum áfram sem endranær að miða alla skipulagsgerð að því að skapa gott byggt umhverfi sem heldur vel utan um líf og tilveru allra í samfélaginu, þar sem tillit er tekið til ólíkra þarfa íbúa og atvinnulífs, auk þess að gæta líffræðilegrar fjölbreytni, landslagsverndar og fjölda annarra gæða og hagsmuna.

Skipulagsgerð um byggðaþróun og landnýtingu er þannig og verður flókið viðfangsefni sem krefst þekkingar, vandvirkni og tíma.

Margar flugur í einu höggi ...

Eitt af því sem er mikilvægt að hafa sem vegarnesti við skipulagsgerð í flóknum heimi, er að velja aðgerðir og útfærslur í skipulagi sem miða að samþættum ávinningi. Aðgerðir sem skila til dæmis í senn ávinningi í loftslagstilliti og ávinningi fyrir gæði byggðar á viðkomandi stað. Í fyrirliggjandi tillögu að endurskoðaðri landsskipulagsstefnu eru einmitt settar fram hugmyndir sem miða að slíkum samþættum ávinningi fyrir loftslagsmál, landslag og lýðheilsu.

Ein augljós skipulagsáhersla sem miðar að slíkum samþættum ávinningi er beiting sjálfbærra eða blágrænna ofanvatnslausna. Um leið og sjálfbærar ofanvatnslausnir hjálpa til við að takast á við veðuröfgar og úrkomuákefð sem vænta má vegna loftslagsbreytinga, eru sjálfbærar ofanvatnslausnir á formi regnvatnslauta, grænna þaka og gróðurs í byggð til þess fallnar að bæta loftgæði og yfirbragð bæja og hverfa, ungum og öldnum til gleði og gagns í daglegu lífi.

... en líka ólíkar, samstilltar aðgerðir

En við þurfum líka að vera meðvituð um að beita mörgum og ólíkum samstilltum aðgerðum, til að miða að ákveðnu marki. Þannig er til dæmis mikilvægt að einblína ekki á orkuskipti í samgöngum, heldur jafnframt að tryggja skýra áherslu á samþætt byggðar- og samgönguskipulag, með þéttri, blandaðri byggð, sem ýtir undir virka ferðamáta, göngu og hjólreiðar, og almenningssamgöngur. Með því næst ekki einasta, samdráttur í losun frá samgöngum, heldur einnig margvíslegur annar dýrmætur ávinningur, svo sem í bættum loftgæðum, aukinni hreyfingu, skemmtilegra bæjarlífi og minni þörf á fjárfestingum í byggingum og landi undir bíla og samgöngumannvirki.

Land er takmörkuð auðlind

En ég sagði að skipulagsgerð um byggðaþróun og landnýtingu væri flókið viðfangsefni þar sem ólík sjónarmið og hagsmunir geta togast á. Það helgast auðvitað meðal annars af því að land er takmörkuð auðlind. Það land sem við höfum yfir að ráða við skipulagsgerð er af endanlegri stærð og öllu því sem krefst landrýmis til athafna þarf að vera hægt að koma haganlega fyrir, í sem bestri sátt við aðra notendur, hagsmuni og sjónarmið.

Og það er ekki bara land sem er takmörkuð auðlind. Sama gildir um tiltekin náttúrugæði, eins og vatnsföll og jarðhitasvæði. Þess vegna er grundvallaratriði að við veljum ávallt hvernig við ráðstöfum landi og þessum gæðum með langtíma almannahagsmuni að leiðarljósi.

Þótt við eigum að miða að því að velja leiðir í skipulagi sem miða að samþættum ávinningi, eins og ég nefndi fyrr, þá fela auðvitað tiltekin áform um uppbyggingu í sér að við þurfum að velja á milli ólíkrar landnýtingar. Við verndum ekki og virkjum sama fossinn, svo dæmi sé tekið. Og hvað er þá til ráða? Hvað getur leitt okkur að réttastri niðurstöðu þegar þannig háttar til?

Til þess þurfum við að beita fagmennsku, nýta þau tól og tæki sem skipulagsfræði, arkitektúr og umhverfismat bjóða upp á, til að greina möguleika, greina áhrif og eiga samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila um framtíðarsýn fyrir viðkomandi svæði og leiðir til að vinna að þeirri framtíð.

Regluverk sem styður sjálfbæra nýtingu

En við þurfum líka að hafa regluverk sem styður. Til að mynda, ef sátt er um að virkja á tilteknu svæði í þágu orkuskipta, þá þurfa að vera leiðir til að tryggja að orkan rati í reynd til þeirra nota.

Við þurfum jafnframt að temja okkur meira og betur en við höfum gert, að tryggja sem besta nýtni á þeim auðlindum sem við hagnýtum, vegna þess að landið og náttúrugæðin eru jú takmörkuð auðlind.

Það getur tekið á sig ýmsar myndir. Eitt er að við náum sem mestri orku út úr þeim orkulindum sem við ákveðum að virkja. Í dag er ákveðinn hvati í regluverkinu til að fara í virkjanir undir 10 MW. Það vekur spurningar um hvort það skili okkur farsælum og réttum ákvörðunum um ráðstöfun takmarkaðra gæða. Ég hef efasemdir um að svo sé. Þegar við ákveðum að fórna náttúruperlu í þágu orkuframleiðslu, hlýtur að vera forgangsatriði að sú ákvörðun skili samfélaginu sem bestri nýtingu viðkomandi orkulindar.

Annað er að við kappkostum að fullnýta auðlindastraumana sem við beislum. Uppbygging auðlindagarða á Hellisheiði og Reykjanesi er jákvæð þróun í þá átt, en við eigum þar örugglega ennþá langt í land, því eins og við þekkjum, nýtum við til dæmis aðeins lítinn hluta hinnar beisluðu orku, þegar við framleiðum rafmagn með jarðvarma.

Þarna gilda í senn aldagömul viðhorf um nýtni og nýrri hugmyndir um hringrásarhugsun og hringrásarhagkerfi.

Í síðustu viku stóð hönnunarsamfélagið á Íslandi fyrir sinni árlegu hátíð, Hönnunarmars. Það var sérstaklega ánægjulegt að upplifa þar hvernig nýtni og hringrásarhugsun er orðið meginstef í efnistökum og nálgun leiðandi hönnuða, hvort heldur er í arkitektúr eða vöruhönnun. Sama þarf að gerast hjá okkur sem höndlum með skipulagsmál og orku- og veitumál. Nálgun nýtni og hringrásarhugsunar þarf að verða meginstraumsnálgun í öllu okkar starfi.

Lagaumgjörð orkumála

Að endingu langar mig að koma almennt að lagaumgjörð um orkunýtingu, þar sem spila þurfa saman löggjöf á sviði orkumála og skipulagslöggjöfin. Lagaumgjörð um svo dýnamískan málaflokk verður seint fullsköpuð. Bæði koma sífellt upp nýjar áskoranir og eins þurfum við að læra af reynslu af framkvæmd mála undir gildandi regluverki.

Það er þörf á að yfirfara og rýna lagaumgjörð um orkunýtingu og þá sérstaklega lög um rammaáætlun. Í landi með gnótt tækifæra til orkunýtingar, en sem býr jafnframt yfir miklum verðmætum sem felast í landslagi og ósnortinni náttúru, er sérstaklega mikilvægt að lagaumgjörð og stjórnsýsla skili samfélaginu sem bestum ákvörðunum um þessi efni – skilvirkt, lýðræðislega og byggt á sterkum faglegum grunni.

Nokkuð brokkgeng vegferð rammaáætlunar á undanförnum árum, sem og að það er enn ólent hvernig vindorkunni verði best fyrir komið í regluverki og stefnu stjórnvalda, gefur tilefni til markvissrar og heildstæðrar rýni á því sem virkar og því sem bæta má í þeirri löggjöf.

Það er því ánægjuefni að stjórnarsáttmálinn geri ráð fyrir endurskoðun laga um rammaáætlun og lagasetningu og stefnumótun um vindorkunýtingu. Í þeirri vinnu er mikilvægt að litið verði samstillt á löggjöf um orkumál annars vegar og skipulagslöggjöfina og stefnumótun í skipulagsmálum hins vegar.

Við erum vel menntuð þjóð með sterka innviði, í landi sem er sprúðlandi af náttúrugæðum og margvíslegum tækifærum. Okkur á að geta farnast vel við þá skipulagsgerð og ákvarðanatöku um landnýtingu sem framundan er í orku- og veitumálum.