Fréttir


  • Mósaíkmynd Gerðar Helgadóttur við Tryggagötu

1.4.2020

Landslagssamningur Evrópu tekur gildi hér á landi

Í dag, 1. apríl, tekur Landslagssamningur Evrópu gildi gagnvart Íslandi. Landslagssamningurinn var gerður á vettvangi Evrópuráðsins árið 2000 og tók gildi fjórum árum síðar gagnvart þeim ríkjum sem þá höfðu fullgilt hann. Í kjölfar fullgildingar Íslands nú eru aðildarríki samningsins orðin 40 talsins og eru öll Norðurlöndin þar á meðal.

Landslagssamningur Evrópu felur í sér áherslu á landslag sem sameiginlega auðlind Evrópuríkja. Ákvæði hans leggja skyldur á aðildarríkin um að viðurkenna mikilvægi landslags í löggjöf sinni og setja sér áætlanir um verndun, stjórnun og skipulag landslags.

Samningurinn nær til alls landslags, bæði náttúrulegs og manngerðs. Hann á við jafnt í byggð og óbyggðum, í borgum og bæjum, til sveita og við sjávarsíðuna.

Landslagssamningurinn fjallar ekki eingöngu um verðmætt og fágætt landslag heldur einnig um landslag sem telst hversdagslegt. Byggt er á því að hvers konar landslag geti verið mikilvægur þáttur í lífsgæðum og sjálfsmynd fólks og er áhersla lögð á að auka vitund fólks um gildi landslags og að tryggja þátttöku almennings í ákvarðanatöku um vernd og nýtingu landslags.

Með aðild Íslands að samningnum er áhersla hérlendis á landslag við skipulagsgerð og mannvirkjahönnun enn frekar undirstrikuð en þegar er gert í löggjöf og stefnu stjórnvalda. Einnig gefur aðild að samningnum Íslendingum aukin tækifæri til samstarfs við og lærdóma af öðrum aðildarríkjum hans um málefni tengd landslagi.