Fréttir


  • Forsíðumynd leiðbeininga um ferðamannastaði

30.1.2024

Leiðbeiningar um ferðamannastaði

Frá hugmynd til framkvæmdar

Út er komið leiðbeiningaritið Ferðamannastaðir – frá hugmynd til framkvæmdar: Skipulag og leyfisveitingar.

Skipulagsstofnun hefur unnið að gerð leiðbeininganna um nokkurt skeið með aðstoð ráðgjafar- og verkfræðistofunnar VSÓ Ráðgjöf og í samráði við samstarfshóp stjórnvalda sem vinnur að eflingu fagþekkingar og bættri hönnun og merkingum á ferðamannastöðum, verkefnisstjórn landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

Leiðbeiningunum er ætlað að veita yfirsýn yfir það sem þarf að hafa í huga við verkefni sem snúa að uppbyggingu ferðamannastaða, um forsendur og ferli er varða gerð skipulagsáætlana og leyfisveitinga. Þar er gefið yfirlit yfir þá meginþætti sem huga þarf að við undirbúning áfangastaðar, frá hugmynd að leyfi til framkvæmdar, ásamt því að vísa á fyrirliggjandi ítarefni og leiðbeiningar.

Leiðbeiningarnar eru fyrst og fremst ætlaðar þeim sem hyggja á framkvæmdir við uppbyggingu ferðamannastaða, landeigendum, framkvæmdaraðilum og ráðgjöfum þeirra og eiga við um allar framkvæmdir sem tengjast uppbyggingu ferðaþjónustu, frá hóteluppbyggingu til minni framkvæmda, áningastaða, stíga eða annarra aðstöðu.

Við hverskyns uppbyggingu á ferðamannastöðum, hvort sem um er að ræða nýjan eða úrbætur á fyrirliggjandi stað, er mikilvægt að vandað sé til verka sem meðal annars felst í skýrri sýn á það verkefni sem fyrir höndum er. Von er til að leiðbeiningarnar nýtist þeim sem koma að mótun og uppbygginu ferðamannastaða, veiti yfirsýn yfir ferlið í heild og auðveldi jafnframt vinnu við meginþætti þess. 

Hér má nálgast leiðbeiningaritið:

Ferðamannastaðir - frá hugmynd til framkvæmdar: Skipulag og leyfisveitingar