Fréttir


18.8.2014

Að loknum kynningar- og samráðsfundi um greiningu valkosta – og umhverfismat

Frestur til að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum við valkosti er til 8. september næstkomandi

Skipulagsstofnun vill þakka öllum sem sóttu kynningar- og samráðsfundinn 15. ágúst síðastliðinn. Mæting fór fram úr björtustu vonum, en um 140 manns mættu til fundarins. Umræðan var kröftug og eftir fundinn liggur efniviður sem nýtist við útfærslu landsskipulagsstefnu.

Rétt er að vekja athygli á að tækifæri er til að koma að skriflegum ábendingum varðandi valkostina fram til 8. september næstkomandi. Í því samhengi er mikilvægt að þátttakendur í ferlinu hafi tækifæri til að árétta og benda á þætti sem sérstaklega þarf að huga að við útfærslu stefnunnar, en ekki er gerð ítarleg skil í forsenduskýrslu (Skipulagsmál á Íslandi 2014 - Lykilmælikvarðar og fyrirliggjandi áætlanir)  eða skýrslu um greiningu valkosta (Landsskipulagsstefna – Greining valkosta og umhverfisáhrifa). Tenglar á þessi skjöl eru hér að neðan, en ábendingar og athugasemdir sendist á landsskipulag@skipulagsstofnun.is eða í gegnum heimasíðu landsskipulagsstefnu.

 

 

Næsti áfangi landsskipulagsvinnunnar er útfærsla sjálfrar landsskipulagstillögunnar. Gert er ráð fyrir að sú vinna standi fram í október og mun Skipulagsstofnun vinna að henni í samráði við ráðgjafarnefnd sem og leita eftir samráði við aðra aðila við útfærslu einstakra markmiða og leiða eftir því sem efnið kallar á. Gert er ráð fyrir að landsskipulagstillagan verði auglýst í október og þá verða jafnframt kynningar- og umræðufundir víða um land og átta vikna frestur til skriflegra athugasemda.

Úr þeim verður síðan unnið og gengið frá þingsályktunartillögu til framlagningar á vorþingi 2015.