Fréttir


16.9.2014

Vestfjarðavegur (60) milli Bjarkalundar og Melaness

Mat á umhverfisáhrifum - Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun

Skipulagsstofnun hefur haft til afgreiðslu tillögu að matsáætlun Vegagerðarinnar fyrir Vestfjarðaveg (60) milli Bjarkalundar og Melaness í Reykhólahreppi. 

Tillaga Vegagerðarinnar að matsáætlun gerir ráð fyrir að lagt verði mat á umhverfisáhrif fimm veglína. Skipulagsstofnun hefur farið yfir framlögð gögn Vegagerðarinnar og borið þau saman við fyrri áform um vegalagningar á umræddu svæði, en metin voru umhverfisáhrif fyrirhugaðra vegaframkvæmda 2005-2007 og úrskurðaði Skipulagsstofnun um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar þann 28. febrúar 2006. Þar var fallist á þær tvær leiðir sem lagðar voru fram á milli Bjarkalundar og Þórisstaða og jafnframt fallist á vegaframkvæmdir frá Kraká að Eyri. Hinsvegar var lagst gegn leiðum B (sem fólst í sex mismunandi veglínuútfærslum) og C á kaflanum frá Þórisstöðum að Kraká. Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til umhverfisráðherra, sem kvað upp úrskurð 5. janúar 2007. Úrskurður ráðherra fór síðar fyrir dómstóla og leiddi dómur Hæstaréttar frá 22. október 2009 til þess að úrskurður Skipulagsstofnunar öðlaðist réttaráhrif að nýju.

Skipulagsstofnun telur að veglína sem Vegagerðin leggur nú fram í tillögu að matsáætlun og er nefnd Þ-H fylgi að verulegu leyti fyrri útfærslum veglína sem lagðar voru fram sem leið B um Hallsteinsnes/Teigsskóg í matsskýrslu 2005 og á það sama við að hluta til um veglínur I og H í tillögunni.

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að fallast ekki á tillögu Vegagerðarinnar að matsáætlun sem lögð var fram á grundvelli 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 vegna veglína Þ-H og H og I að hluta. 

Skipulagsstofnun hefur hins vegar kynnt Vegagerðinni leiðbeiningar um mögulegar leiðir til úrlausna í þessu máli og væntir þess að á því verði fundin lausn í sem mestri sátt.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar má skoða hér.