Fréttir


30.12.2014

Ísgöng í Langjökli

Skipulagsstofnun hefur að ósk Borgarbyggðar unnið lýsingu vegna tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands 2015 vegna fyrirhugaðrar breytingar á skálasvæði Geitlandsskála vegna ísganga í Langjökli. Breytingin fellur undir lög um umhverfismat áætlana. Í vor var gerð breyting á skipulagslögum og settar inn málsmeðferðarreglur vegna breytinga á svæðisskipulaginu til þess að stofnunin geti framfylgt ákvæði laganna sem tóku gildi 1. janúar 2011, þegar svæðisskipulagsnefnd miðhálendisins var lögð af.

Þar til landsskipulagsstefna hefur leyst svæðisskipulag miðhálendisins af hólmi er Skipulagsstofnun heimilt að gera breytingar á svæðisskipulaginu til samræmis við tillögur sveitarfélaga að breytingu á aðalskipulagi, svo fremi að breytingin feli ekki í sér nýja stefnumörkun um landnotkun. Að mati stofnunarinnar samræmist fyrirhuguð breytingartillaga meginstefnu svæðisskipulagsins en kallar á breytingu á kafla 3.5.3 í greinargerð. Skipulagsstofnun stefnir að því að auglýsa breytingartillögu ásamt umhverfisskýrslu eigi síðar en um miðjan febrúar 2015 og verður þá gefinn sex vikna athugasemdafrestur. Allir eru hvattir til að kynna sér tillöguna.

Skipulagsstofnun gefur umsagnaraðilum og öðrum sem áhuga hafa færi á að koma með ábendingar við meðfylgjandi lýsingu til 15. janúar 2015.

Svæðisskipulagslýsingin hefur nú verið send eftirtöldum umsagnaraðilum: Borgarbyggð, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi, Húnavatnshreppi, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands, Ferðamálastofu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Vegagerðinni,  Heilbrigðiseftirliti Vesturlands,  Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Mannvirkjastofnun og Þingvallanefnd.

Vakin er athygli á að Borgarbyggð hefur nú þegar auglýst til kynningar lýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi og vegna tillögu að deiliskipulagi og er hægt að senda sveitarfélaginu ábendingar vegna þeirra til 15. janúar 2015.