Fréttir


29.4.2015

Vegna umfjöllunar um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar verksmiðju Silicor Materials á Grundartanga

Undanfarið hefur verið nokkuð fjallað um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar starfsemi Silicor Materials á Grundartanga í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Af því tilefni telur Skipulagsstofnun rétt að skýra eftirfarandi:

Sú starfsemi sem Silicor Materials áformar er tilkynningarskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það felst í því að framkvæmdaraðili tilkynnir framkvæmdina til Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun leitar álits sérfræðistofnana og viðkomandi sveitarfélaga á erindinu og tekur síðan ákvörðun um það hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati eða ekki.

Silicor Materials tilkynnti Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framleiðslu á sólarkísli á Grundartanga í mars 2014. Í erindi Silicor Materials kom meðal annars eftirfarandi fram um fyrirhugaða starfsemi fyrirtækisins.

  • Fyrirhugað er að framleiða sólarkísil sem notaður er í framleiðslu á sólarsellum.
  • Fyrirhugað er að beita nýju framleiðsluferli sem Silicor Materials hefur einkaleyfi á, en í því er kísillinn hreinsaður með því að bræða hann í fljótandi áli. Þegar bráðin er kæld fellur út kísill af þeim hreinleika sem þarf við framleiðslu á sólarsellum. Framleiðslan mun felast í að hreinsa 99,5% hreinan kísil með því að minnka magn bórs, fosfórs og ýmissa málma í kíslinum. Þannig er fyrirhugað að fá 99,9999% hreinan kísill sem nota má í sólarsellur. Bráðið ál verður notað sem eins konar hreinsilögur á kísilinn, til að fjarlægja óhreinindin sem bindast frekar áli en kísli.
  • Lítill úrgangur mun falla til í framleiðsluferlinu. Eiginlegur úrgangur verður sýra (um 100 l á ári af saltsýru) sem fellur til á rannsóknarstofu við prófanir.  Fastur úrgangur sem fellur til við viðhald á ofnum og deiglum eru múrsteinar sem notaðir verða í fóðrun. Þeir munu samanstanda af áloxíðum, kísiloxíðum, basískum oxíðum og jarðalkalímálmum (s.s. járni og títan) og flokkast ekki sem hættulegur úrgangur. 

  • Verksmiðjan er áformuð á lóð sem er innan þynningarsvæðis á Grundartanga, en það er skilgreint út frá  losun brennisteinsdíoxíðs og flúoríðs frá starfandi stóriðju á svæðinu. Losun frá verksmiðju Silicor Materials verður einkum ryk og er gert ráð fyrir að verksmiðjan losi um 63 tonn á ári af ryki. Í rykinu verða ekki efni sem mengunarmörk gilda um.  Uppistaðan verður kísill og önnur efni í óverulegum mæli. Engin brennisteins- eða flúormengun fylgir framleiðslunni og útstreymi koltvísýrings verður undir 1000 tonnum á ári. Álag vegna málma og snefilefna sem fylgja hráefni og framleiðsluvöru verður hverfandi. Útstreymi frá verksmiðjunni hefur ekki áhrif á skilgreint þynningarsvæði.

Silicor Materials tilkynnti framkvæmdina til Skipulagsstofnunar, eins og áður segir, í mars 2014. Áður en Skipulagsstofnun tók ákvörðun leitaði hún umsagna leyfisveitenda og fleiri opinberra sérfræðistofnana. Engin þeirra lagði til að starfsemin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort þörf væri á umhverfismati var kynnt í apríl 2014. Niðurstaða stofnunarinnar var að framkvæmdin skyldi ekki háð umhverfismati. Í ákvörðun stofnunarinnar segir meðal annars:

„Skipulagsstofnun telur að áhrif starfseminnar á loftgæði og gæði yfirborðsvatns verði óveruleg. Því veldur fyrst og fremst að unnið er að því að fullhreinsa hráefni sem er mjög hreint þegar það er tekið til vinnslu og framleiðslan felur ekki í sér útblástur eða útskolun mengunarefna, heldur er unnið með lokaðan framleiðsluferil þar sem öll framleiðslan og hliðarafurðir nýtast sem söluvara. Starfsemin felur hvorki í sér útblástur af flúor né brennisteinsdíoxíði og hefur því engin áhrif á stærð þynningarsvæðis fyrir iðjuverin á Grundartanga eða aukið mengunarálag innan þess.  Sú mengun sem berst frá starfseminni til andrúmslofts er ryk en miðað við framlagðar upplýsingar um magn og samsetningu þess telur Skipulagsstofnun að áhrif af völdum þess verði óveruleg.“

Skipulagsstofnun byggði ákvörðun sína á greinargerð Silicor Materials og umsögnum fagstofnanna.  Ekkert kom fram við meðferð málsins sem benti til þess að starfsemin kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og þyrfti þar af leiðandi að sæta umhverfismati. 

Sú framleiðsluaðferð, notkun hættulegra efna og umhverfisáhrif sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum að undarnförnu í tengslum við áform Silicor Materials á Grundartanga er ekki í samræmi við þá starfsemi sem tilkynnt var til Skipulagsstofnunar og stofnunin tók afstöðu til í ákvörðun sinni. Þegar kemur að leyfisveitingum til framkvæmdarinnar, þ.e. útgáfu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi og sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á  framkvæmdaleyfi, þurfa þessir leyfisveitendur að ganga úr skugga um að framkvæmdin sé sú sama og lýst var í þeim gögnum sem framangreind ákvörðun Skipulagsstofnunar byggði á.