Fréttir


  • Reykjanesvirkjun

1.12.2015

Vegna geislavirkra efna við Reykjanesvirkjun


Skipulagsstofnun hefur í kjölfar fréttaflutnings í september sl. haft til skoðunar hvort nýjar upplýsingar um geislavirk efni sem fundist hafa í borholutoppum við Reykjanesvirkjun kalli á málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Einnig hefur stofnunin haft til skoðunar hvort vænta megi að geislavirk efni finnist við aðrar jarðvarmavirkjanir hér á landi.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar er að meta þurfi umhverfisfsáhrif á þeim breytingum Reykjanesvirkjunar sem felast í meðferð og förgun geislavirkra efna.

Þá er það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að forsvarsaðilar annarra jarðvarmavirkjana þurfi að sýna fram á að ekki sé um að ræða meðhöndlun geislavirkra efna við þeirra vinnslu og miðla niðurstöðum þeirra rannsókna til Skipulagsstofnunar.

Framvegis mun Skipulagsstofnun fara fram á að í mati á umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjana sé gerð grein fyrir líkum á útfellingum geislavirkra efna og eftir atvikum viðbrögðum við því.

Skipulagsstofnun hefur komið þessum upplýsingum á framfæri við HS Orku, Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur auk Geislavarna ríkisins og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.

Greinargerð vegna geislavirkra efna í borholum við Reykjanesvirkjun 30.11.2015 má sjá hér.