Fréttir


1.3.2010

Tilmæli til sveitarfélaga - Ekki nægir fyrir sveitarstjórnir að staðfesta fundargerðir án umræðu

Skipulagsstofnun vekur athygli sveitarfélaga á úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 7. sept. 2009, í máli nr. 114/2008 (Aspargrund), en þar segir meðal annars í niðurstöðukafla:

"Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er það á valdsviði sveitarstjórnar að ákveða dagsektir til að knýja fram fyrirmæli byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar. Í málinu liggur aðeins fyrir tillaga byggingarnefndar til bæjarstjórnar um að beita dagsektum. Hins vegar liggur ekki fyrir að bæjarstjórn hafi tekið ákvörðun um dagsektir í máli þessu og breytir engu þótt hún hafi samþykkt án umræðu fundargerð byggingarnefndar þar sem umrædd tillaga er gerð. Var tillaga byggingarnefndar um dagsektir ekki lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina..."

Í úrskurði nefndarinnar frá 19. maí 2009, í máli nr. 162/2007 (Gulaþing) má finna svipuðum sjónarmiðum stað, en þar segir meðal annars:

"Skilja verður framangreind ákvæði á þann veg að skipulagsnefnd sveitarfélags sé ekki falin fullnaðarafgreiðsla erinda er varða nýtt eða breytt deiliskipulag, hvort sem er til samþykkis eða synjunar. Það er sveitarstjórnar einnar að taka slíkar ákvarðanir, nema fyrir hendi sé sérstök samþykkt sveitarfélagsins um annað fyrirkomulag, sbr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en slík samþykkt er ekki fyrir hendi í hinu kærða tilviki.

Samkvæmt framansögðu verður ekki litið svo á að hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga 37/1993, enda var nefndin aðeins bær til þess að gera tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu málsins. Engin ákvörðun liggur fyrir af hálfu sveitarstjórnar í málinu og gildir einu þótt fundargerð skipulagsnefndar hafi verið afgreidd í heild án umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn enda var ekki með því tekin afstaða til þess erindis sem um ræðir í máli þessu. Skorti því á að tekin væri kæranlega lokaákvörðun í málinu og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni."

Að mati Skipulagsstofnunar verður ekki annað ráðið af umræddum úrskurðum en að í þeim málum sem áskilið er að sveitarstjórn taki ákvörðun í, verði sveitarstjórn að fjalla sérstaklega um tillögu undirnefnda sinna og taka afstöðu til þeirra, en ekki nægir að sveitarstjórn samþykki fundargerð undirnefndar í heild sinni. Verður slíkt jafnframt að koma skýrt fram í fundargerð sveitarstjórnar.