Fréttir


9.12.2011

Fréttatilkynning Skipulagsstofnunar vegna Vestfjarðavegar milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði

Þann 5. desember s.l. gaf Skipulagsstofnun út álit vegna mats á  umhverfisáhrifum  Vestfjarðavegar milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði.  Það  álit hefur orðið tilefni til athugasemda þingmanns Vesturlands og ályktunar  bæjarstjórnar Vesturbyggðar, sem Skipulagsstofnun telur rétt að bregðast  við.

Álit Skipulagsstofnunar byggði á matsskýrslu og sérfræðiskýrslum  Vegagerðarinnar, auk umsagna fagstofnana og athugasemda almennings.   Fyrirhugaður kafli Vestfjarðavegar hefur það markmið að stytta vegalengdir og  bæta samgöngur á Vestfjörðum. Hins vegar er ljóst að þessi umfangsmikla  framkvæmd getur ekki orðið að veruleika án þess að hafa í för með sér neikvæð  áhrif á umhverfi sitt, s.s. á landslag og arnarvarp.  Þau neikvæðu áhrif hvorki  minnka né hverfa þrátt fyrir að markmiðið með framkvæmdinni sé jákvætt fyrir  samfélag. 

Skipulagsstofnun telur rétt að árétta að helstu niðurstöður álits  stofnunarinnar, sem snúa að landslagi og áhrif framkvæmda á örninn, eru í  megindráttum samhljóma þeirri niðurstöðu sem Vegagerðin kemst að í matsskýrslu  sinni vegna framkvæmdarinnar. Í lokaorðum matsskýrslu Vegagerðarinnar (bls. 231)  segir að til að koma veginum fyrir þurfi að breyta landslagi töluvert og helstu  neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar verði vegna breytinga á landslagi sem sé innan  svæðis sem er á Náttúruminjaskrá og innan verndarsvæðis Breiðafjarðar.  Vegagerðin kemst að þeirri niðurstöðu (tafla 11.1) að bæði veglína A og B muni  hafa talsvert til verulega neikvæð áhrif á landslag og byggja þær vægiseinkunnir  á skilgreiningum sem notaðar eru við mat á umhverfisáhrifum og skýrðar á bls. 89  í matsskýrslu Vegagerðarinnar.  Þar kemur m.a. fram að sé um verulega neikvæð  áhrif að ræða verði breyting eða tjón sem hlýst af framkvæmdinni oftast  varanlegt og óafturkræft. Vegna áhrifa framkvæmda á arnarvarp telur Vegagerðin í  matsskýrslu sinni (bls. 153) að áhrifin séu háð nokkurri óvissu en annars geti  þau orðið nokkuð til talsvert neikvæð. Það sem haft hefur verið eftir  Skipulagsstofnun varðandi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar er því í megindráttum  það mat sem Vegagerðin sjálf setti fram í sinni  matsskýrslu.

Því hefur m.a. verið haldið fram að Skipulagsstofnun hafi fyrirfram  gefnar skoðanir á vegagerð á Vestfjörðum og leggist gegn þverun Mjóafjarðar og  Kjálkafjarðar. Í matsskýrslu Vegagerðarinnar eru lagðir fram tveir  veglínukostir, sem báðir gera ráð fyrir að þvera firðina, en í tilfelli  Mjóafjarðar voru metnir kostir þess að þvera fjörðinn annars vegar í mynni hans  og hins vegar nærri botni hans. Aðrir veglínukostir voru ekki metnir. Hvergi í  áliti Skipulagsstofnunar er að finna skoðun stofnunarinnar á því hvorn kostinn  skuli frekar velja.

Skipulagsstofnun bendir á að eitt af markmiðum laga um mat á  umhverfisáhrifum framkvæmda er að fyrir liggi upplýsingar um hugsanleg  umhverfisáhrif framkvæmdarinnar áður en veitt er leyfi fyrir henni. Í þessu  sambandi skiptir máli m.a. hvar framkvæmdin er fyrirhuguð og umfang hennar, en í  tilfelli Vestfjarðavegar milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði er um  að ræða umfangsmikla framkvæmd á svæði sem um gilda ýmis lög er lúta að  náttúruvernd og að mestu innan svæðis á náttúruminjaskrá. Skipulagsstofnun hefur  það hlutverk að tryggja að farið sé eftir markmiðum og ákvæðum laganna þegar  metin eru umhverfisáhrif framkvæmda og telur sig hafa uppfyllt það hlutverk sitt  í þessu tilfelli.  Í framhaldinu munu sveitarfélög sem í hlut eiga taka ákvörðun  um hvort veita eigi leyfi fyrir framkvæmdunum og skulu þá taka mið af niðurstöðu  mats á umhverfisáhrifum. Við útgáfu leyfanna þarf m.a. að gera ráð fyrir  samráði, skilyrðum og mótvægisaðgerðum sem matsferlið hefur leitt í ljós að sé  nauðsynlegt til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og þar með er uppfyllt  eitt af meginmarkmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum.