Fréttir


1.2.2013

Ný skipulagsreglugerð nr. 90/2013

Ný skipulagsreglugerð nr. 90/2013, hefur nú tekið gildi á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 og um leið fellur úr gildi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 með síðari breytingum og ákvæði annarra reglugerða og samþykkta er brjóta í bága við nýja skipulagsreglugerð.

Í reglugerðinni er að finna fjölmargar breytingar frá eldri skipulagsreglugerð og er í því samhengi fyrst að nefna breytta framsetningu reglugerðarinnar frá því sem verið hefur þar sem hvert skipulagsstig er tekið fyrir í sér kafla.


Fleiri stórar breytingar eru í nýrri reglugerð svo sem hvernig fjalla á um ýmis viðfangsefni á mismunandi skipulagsstigum, breyttir og nýir landnotkunarflokkar og skýrari ákvæði um framsetningu skipulags og afgreiðslu sveitarstjórna á skipulagstillögum.  Í reglugerðinni er lögð áhersla á samráð, vandað verklag og stefnumótun og einnig að framsetning stefnu og skilmála sé skýr til að tryggja gæði skipulagsáætlana og virkni þeirra sem stjórntækis.


Leiðbeiningar um reglugerðarskil verða settar á heimasíðu.

Haldnir verða kynningarfundir um skipulagsreglugerðina og verða þeir auglýstir og kynntir með áberandi hætti.

Sjá umfjöllun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins