Fréttir


28.6.2013

Innleiðing stafræns skipulags

Skráning á póstlista vegna samráðs um verkefnið

Skipulagsstofnun er að hefja vinnu við innleiðingu á stafrænu skipulagi í samræmi við skipulagsreglugerð (nr. 90/2013). Í þessari vinnu vill stofnunin byggja á samvinnu og samráði við lykilaðila, svo sem sveitarfélög og stofnanir á sviði grunngerðar landupplýsinga. Stofnaður hefur verið sérstakur samráðshópur fulltrúa hagsmunaaðila og stofnana sem koma að innleiðingunni. Samráðshópnum er ætlað að veita stofnuninni ráðgjöf og móta kröfur í reglugerð og leiðbeiningar um gæði, fyrirkomulag og afhendingu gagna. Á Skipulagsstofnun er verkteymi sem heldur utan um verkefnið og ber ábyrgð á innleiðingunni frá degi til dags.

Skipulagsstofnun vill hér með bjóða öllum þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta og/eða hafa áhuga á viðfangsefninu að skrá sig á sérstakan póstlista í tengslum við innleiðingu stafræns skipulags. Í gegnum þennan póstlista verða þátttakendur upplýstir um það sem er í gangi á hverjum tíma í innleiðingarferlinu, svo sem gerð fitjuskrár fyrir stafrænt skipulag, nánari ákvæði í reglugerð og gerð leiðbeininga. Öllum verður frjálst að koma á framfæri almennum ábendingum og upplýsingum sem varða innleiðinguna en auk þess verður hægt að koma á framfæri athugasemdum við einstök skjöl sem verða kynnt í ferlinu. Til upplýsingar er hér skýrslan Innleiðing stafræns skipulags sem Árni Geirsson hjá Alta vann með styrk frá Rannsókna- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar.


 

Tilkynning um skráningu á póstlista vegna innleiðingar stafræns skipulags skal berast til Einars Jónssonar á netfangið  einar@skipulagsstofnun.is fyrir 15. ágúst næstkomandi.