Fréttir


28.1.2014

Afgreiðsla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og Aðalskipulags Kópavogs 2012-2024

Skipulagsstofnun hefur að undanförnu haft til afgreiðslu til staðfestingar nýtt aðalskipulag Reykjavíkur og Kópavogs, en þessar áætlanir voru samþykktar af viðkomandi sveitarfélögum fyrir áramót.
Samkvæmt skipulagslögum er það hlutverk Skipulagsstofnunar að staðfesta aðalskipulag, en það hlutverk var áður á hendi umhverfisráðherra. Skipulagsstofnun ber þó enn að vísa aðalskipulagi til staðfestingar ráðherra í þeim tilvikum þegar stofnunin telur að synja beri skipulaginu staðfestingar eða fresta staðfestingu þess að hluta eða öllu leyti.
Skipulagsstofnun hefur fjallað um erindi Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar og afgreitt þau á þann veg að óskað hefur verið eftir skýringum og leiðréttingum sveitarfélaganna á tilteknum atriðum sem liggja þurfa fyrir áður en stofnunin getur staðfest umræddar skipulagsáætlanir. Í tilviki aðalskipulags Reykjavíkur varðar það fyrst og fremst áform um uppbyggingu í Vatnsmýri og samræmi aðalskipulagsins við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hvað varðar íbúðauppbyggingu og stofnbrautarkerfi. Í tilviki aðalskipulags Kópavogs varðar það fyrst og fremst samræmi aðalskipulagsins við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hvað varðar íbúðauppbyggingu, auk tiltekinna atriða varðandi stefnu um Þríhnúkagíg og brú í Fossvogi.