Fréttir


  • Fífa

1.9.2021

Ný lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana taka gildi

Í dag, 1. september 2021, taka gildi ný lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Þau fela í sér sameiningu löggjafar um umhverfismat framkvæmda annarsvegar og um umhverfismat áætlana hinsvegar. Með gildistöku þeirra falla úr gildi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisahrifum og lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.

Nýju lögin eru afrakstur vinnu við endurskoðun eldri laga sem hófst með skipun starfshóps árið 2019. Starfshópnum var falin heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum með það fyrir augum að auka skilvirkni og tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að umhverfismati framkvæmda, auk þess að endurskoða tiltekin ákvæði laganna. Lögin má nálgast hér.

Helstu nýmæli nýrra laga

  • Sameinuð löggjöf um umhverfismat framkvæmda og umhverfismat áætlana.
  • Áhersla á samþætta málsmeðferð umhverfismats framkvæmda, skipulagsgerðar og annars framkvæmdaundirbúnings, þegar við á, til að auka skilvirkni við greiningu umhverfisáhrifa og samráð við umsagnaraðila og almenning.
  • Forsamráð, þar sem Skipulagsstofnun og viðkomandi framkvæmdaraðilar, sveitarfélög og leyfisveitendur eiga samráð í upphafi umhverfismats um fyrirhugað ferli og eftir atvikum samþættingu við aðra málsmeðferð.
  • Landfræðileg gagna- og samráðsgátt (Skipulagsgátt) sem verður framvegis meginvettvangur allrar miðlunar gagna og samráðs um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
  • Breytt hugtakanotkun, svo sem að nú er talað um umhverfismatsskýrslur í stað umhverfisskýrslna í lögum nr. 105/2006 og í stað frummatsskýrslna og matsskýrslna í lögum nr. 106/2000.
  • Einföldun umhverfismatsferlis framkvæmda, bæði við gerð matsáætlunar og einnig við kynningu og afgreiðslu umhverfismatsskýrslu (áður frummatsskýrslu/matsskýrslu).
  • Breyttir afgreiðslufrestir. Skipulagsstofnun hefur nú sjö vikur til að taka ákvörðun um matsskyldu, gefa út álit um matsáætlun og og gefa út álit um umhverfismat framkvæmdar.
  • Framkvæmdaflokkar endurskoðaðir í ljósi reynslu af framkvæmd eldri laga. Áfram eru þær framkvæmdir sem falla í flokk A háðar umhverfismati. Framkvæmdir í flokki B eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar eins og áður, en flokkur C hefur verið felldur brott.
  • Skerpt er á kröfum til leyfisveitenda um hvernig fjalla ber um umhverfismat við leyfisveitingar.
  • Ákvæði um endurskoðun umhverfismats miða áfram við 10 ár frá því umhverfismat fór fram, en heimila einnig framkvæmdaraðila eða leyfisveitanda að óska eftir áliti Skipulagsstofnunar um endurskoðun umhverfismats innan 10 ára.
  • Reglur um málskot hafa verið einfaldaðar.

Skipulagsgátt – ný landfræðileg gagna- og samráðsgátt

Ein af veigameiri breytingum sem nýju lögin fela í sér varða miðlun upplýsinga og kynningu og samráð, þar sem áherslan er á rafræna upplýsingamiðlun og bætt aðgengi allra að upplýsingum.

Skipulagsstofnun skal koma á fót landfræðilegri gagna- og samráðsgátt, sem hefur í daglegu tali verið kölluð Skipulagsgátt, þar sem öll miðlun gagna og kynning og samráð um umhverfismat framkvæmda og áætlana mun eiga sér stað.

Þar sem hönnun og forritun Skipulagsgáttarinnar er umfangsmikið verk koma lagaákvæðin um hana ekki til framkvæmda fyrr en í desember 2022. Fram að því fer um miðlun gagna og vettvang fyrir kynningu og samráð samkvæmt eldri lögum. Skipulagsstofnun mun þó þegar í stað endurskoða allt verklag sitt þannig að sem mest af samskiptum varðandi umhverfismat geti þegar í stað farið fram rafrænt, svo sem varðandi skil framkvæmdaraðila á gögnum til stofnunarinnar, umsagnarbeiðnir frá stofnuninni til umsagnaraðila og skil umsagnaraðila og almennings á umsögnum til stofnunarinnar.

Lagaskil

Eins og áður segir, taka nýju lögin gildi í dag, 1. september. Í bráðabirgðaákvæðum við þau er tiltekið hvernig fari um málsmeðferð áætlana og framkvæmda sem hafin var fyrir gildistöku laganna.

  • Ef umhverfismatsferli er lokið fyrir 1. september en leyfi til framkvæmda hafa ekki verið gefin út, skal fylgja ákvæðum eldri laga hvað varðar tengsl umhverfismats og leyfisveitinga.
  • Ef frummatsskýrsla hefur verið send Skipulagsstofnun fyrir 1. september er heimilt að ljúka málsmeðferð umhverfismats samkvæmt eldri lögum.
  • Ef framkvæmdir í flokki B og C hafa verið tilkynntar til ákvörðunar um matsskyldu fyrir 1. september er heimilt að ljúka þeirri málsmeðferð samkvæmt eldri lögum.
  • Þar til hafin er starfræksla Skipulagsgáttar fer um kynningu og samráð og birtingu gagna vegna umhverfismats áætlana og umhverfismats framkvæmda samkvæmt eldri lögum.

Reglugerð og leiðbeiningar

Nýju lögin kalla á endurskoðun reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur birt drög að nýrri reglugerð í samráðsgátt stjórnvalda. Jafnframt stendur fyrir dyrum útgáfa ýmissa leiðbeininga um nýju lögin.