Fréttir


  • Vegur

6.12.2021

Ný reglugerð um umhverfismat framkvæmda og áætlana

Umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði 17. nóvember sl. nýja reglugerð um umhverfismat framkvæmda og áætlana og hefur hún verið birt til gildistöku í Stjórnartíðindum.

Ný lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 tóku gildi 1. september síðastliðinn. Með þeim voru sameinuð í ein lög, lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og lög um umhverfismat áætlana. Jafnframt var við samningu þeirra miðað að því að bæta framsetningu laganna með því að hafa ákvæði þeirra styttri og skýrari, meðal annars með því að vísa nánari útfærslu tiltekinna þátta til reglugerðar.

Nú hefur verið sett reglugerð um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 1381/2021, þar sem ýmis ákvæði laganna eru útfærð. Varðar það ekki síst nánari kröfur til þeirra gagna sem lögð eru fram til stjórnvalda og kynnt almenningi við umhverfismat framkvæmda og áætlana, svo sem eins og tilkynninga framkvæmdaraðila vegna matsskylduákvarðana, en einnig matslýsinga, matsáætlana og umhverfismatsskýrslna. Jafnframt er fylgt eftir ýmsum nýmælum og áhersluatriðum laganna, eins og um forsamráð og samþættingu málsmeðferðar, svo eitthvað sé nefnt.

Nálgast má reglugerðina hér.