Fréttir


  • Vegur

15.3.2018

Ný reglugerð um vegi í náttúru Íslands

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur birt nýja reglugerð um vegi í náttúru Íslands. Reglugerðin er sett á grundvelli náttúruverndarlaga og segir til um hvernig ákveða skal vegakerfi í náttúru Íslands, þ.e. legu og flokkun vega sem ekki tilheyra þjóðvegakerfinu.

Setning reglugerðarinnar markar tímamót varðandi vegamál á miðhálendinu, en þar hefur lengi ríkt óvissa um vegi og slóða sem ekki eru hluti þjóðvegakerfisins.

Með náttúruverndarlögum, sem tóku gildi síðla árs 2015, var komið á því fyrirkomulagi að sveitarstjórnir skuli taka saman skrá yfir vegi í náttúru Íslands, aðra en þjóðvegi, þegar þær ganga frá aðalskipulagi, eða eftir atvikum svæðisskipulagi.

Með reglugerðinni sem nú hefur verið birt hafa ákvæði 32. gr. náttúruverndarlaga um skrá yfir vegi í náttúru Íslands verið útfærð nánar. Þannig segir hún meðal annars til um hvernig flokka skuli vegina og hvernig sveitarfélög skuli skila skrá um vegi til Skipulagsstofnunar með samþykktu aðalskipulagi (eða eftir atvikum svæðisskipulagi).

Vegagerðin mun miðla upplýsingum um vegi í náttúru Íslands í vefþjónustu bæði til skoðunar og til niðurhals. Útgefendum korta ber að sjá til þess að upplýsingar á kortum þeirra séu svo sem kostur er í samræmi við vegaskrána.

Reglugerð um vegi í náttúru Íslands 

Náttúruverndarlög