Fréttir


  • Landbúnaður

23.8.2021

Nýlegar lagabreytingar sem varða vernd landbúnaðarlands

Alþingi samþykkti í vor breytingar á jarðalögum sem tóku gildi 1. júlí. Með þeim er felld brott aðkoma landbúnaðarráðherra að ákvörðunum um landskipti og lausn lands úr landbúnaðarnotum. Jafnframt hefur með breytingum á jarðalögum verið skerpt á sambandi skipulags og ákvarðana um landskipti, auk þess sem nú er kveðið á um skyldu sveitarstjórna til að flokka landbúnaðarland við gerð aðalskipulags.

Landbúnaðarland sem hentar vel til ræktunar er verðmæt auðlind. Landsskipulagsstefna beinir því til sveitarfélaga að landi sem hentar vel til ræktunar verði almennt ekki ráðstafað til annarra nota með óafturkræfum hætti. Áþekkt markmið er að finna í jarðalögum sem kveða á um að tryggt verði sem kostur er að land sem er vel fallið til búvöruframleiðslu sé varðveitt til slíkra nota.

Breytingar á landnotkun

Þeim breytingum sem gerðar hafa verið á jarðalögum er ætlað að styrkja skipulagsgerð sveitarstjórna í þágu landbúnaðar og verndar ræktunarlands. Í stað þess að landbúnaðarráðherra þurfi að samþykkja lausn lands úr landbúnaðarnotum skulu sveitarstjórnir nú taka ákvarðanir um breytingar á landnotkun á landbúnaðarlandi við gerð skipulagsáætlana, á grundvelli heildstæðs mats með tilliti til mögulegra búrekstrarnota lands.

Landskipti á grundvelli skipulags

Þá er með breytingum sem gerðar hafa verið á jarðalögum fallið frá því að leita þurfi samþykkis landbúnaðarráðherra fyrir skiptingu lands á landbúnaðarsvæðum. Framvegis liggja ákvarðanir um það hjá sveitarstjórnum.

Með breytingum á jarðalögum hefur jafnframt verið undirstrikað að ákvarðanir sveitarstjórna um landskipti á landbúnaðarsvæðum skulu samrýmast skipulagsáætlunum viðkomandi sveitarfélags og byggja á heildstæðu mati á áhrifum landskiptanna á möguleg búrekstrarnot lands.

Leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands

Þessar nýju breytingar á jarðalögum kveða einnig á um skyldu sveitarfélaga til að flokka landbúnaðarland við gerð aðalskipulags. Með fyrri breytingum á jarðalögum hafði landbúnaðarráðherra verið heimilað að gefa út leiðbeiningar í samvinnu við yfirvöld skipulagsmála um það hvernig skuli flokka landbúnaðarland við gerð aðalskipulags.

Fyrr á þessu ári voru gefnar út leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands, en það er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem stendur að þeim í samstarfi við Skipulagsstofnun og Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar er sett fram flokkun sem fylgja skal þegar landbúnaðarland er kortlagt. Flokkarnir eru fjórir: Mjög gott ræktunarland, gott ræktunarland, sæmilegt ræktunarland og lélegt ræktunarland. Flokkarnir miðast við hæfni lands til matvæla- og fóðurframleiðslu, eða mögulegrar ræktunar iðnaðarjurta.

Leiðbeiningunum er ætlað að nýtast sveitarfélögum við gerð aðalskipulags og stuðla að því að flokkun landbúnaðarlands verði unnin með samræmdum hætti á landinu öllu. Leiðbeiningarnar má nálgast á vef Skipulagsstofnunar og Stjórnarráðsins.

Kynningarfundur um leiðbeiningarnar

Leiðbeiningarnar voru kynntar á fundi sem Skipulagsstofnun stóð fyrir 10. júní sl. í samvinnu við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Á fundinum fjölluðu tveir af höfundum leiðbeininganna um efni þeirra, þær Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur, og Guðrún Lára Sveinsdóttir, sérfræðingur á Skipulagsstofnun. Salvör fór í erindi sínu yfir aðdraganda, tilgang og inntak leiðbeininganna og Guðrún Lára lýsti gögnum sem nýta má við flokkunina og þeim aðferðum sem lagðar eru til grundvallar í leiðbeiningunum. Loks fjallaði Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita, um reynslu sveitarfélaga af flokkun landbúnaðarlands við skipulagsákvarðanir, en nokkur sveitarfélög hafa þegar flokkað landbúnaðarland sitt í tengslum við gerð aðalskipulags. Upptöku af kynningarfundinum ásamt erindum fyrirlesara má nálgast hér.

 

Mynd: Dalius Baranauskas – Dreamstime.com