Fréttir


  • Seyðisfjörður

30.12.2020

Nýtt ár, ný skipulagsöld

Áramótapistill

Þá er þetta dæmalausa ár 2020 að baki með allskyns lærdóma í farteskinu, þeirra á meðal um samtakamátt þjóða og samfélaga; um mátt vísinda og tækniþekkingar; og um fegurðina í hinu smáa – nánd, nægjusemi, nærsamfélagi og nærumhverfi. Allt lærdómar sem eiga að geta verið vegvísir fyrir það hvernig við getum tekist á við loftslagsvána, sem er, þegar farsóttin verður að baki, allra stærsta áskorun okkar tíma og stærsta skyldan sem við eigum við börn okkar, barnabörn og barnabarnabörn.

Í skipulagsmálum hefur Kófið dregið margt fram sem við vissum áður, en höfum fengið staðfest fyrir augum okkar. Eins og um mikilvægi góðs íbúðarhúsnæðis, þegar við erum meira heima við og vinnum jafnvel heima. Um mikilvægi vandaðs og góðs nærumhverfis, þegar við þurfum að stóla meira á það fyrir daglega útiveru, hreyfingu og nánd við náttúru. Að við getum tekist á við umferðarteppurnar og „sprungnu“ vegina með umferðarstýringu, minni ferðaþörf og fjölbreyttari ferðamátum, allt eins og frekar en að leggja alltaf meira land og fjármuni samfélagsins í vegi og akreinar. Og uppskorið í kaupbæti betri heilsu með meiri hreyfingu og útiveru og minni loft- og hljóðmengun frá bílaumferð. Aldeilis ekki allt galið.

En við höfum líka séð áhrif netverslunar og netviðburða á miðbæi, verslunargötur, veitingastaði, viðburða- og listhús og tengd bæjarrými. Þar höfum við fengið hraðnámskeið í því hvaða áskoranir netvæðing verslunar og viðskipta og sjálfvirknivæðing ýmiskonar mun skapa fyrir skipulag bæja og bæjarbrag til framtíðar. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við tryggjum áfram lífvænlega og lifandi miðbæi og þungamiðjur hverfa og bæja, þangað sem við viljum geta – og þurfum að geta – sótt þjónustu og næringu sálar og líkama í samfélagi við allskonar annað fólk af holdi og blóði.

Undanfarið ár höfum við fengið upp í hendurnar ýmis önnur tilefni til að hugsa um hvernig við tökum skynsamlegar og góðar ákvarðanir um byggð og innviði. Í kjölfar fárviðrisins í desember 2019 var sett af stað sérstakt átak til að taka á þeim veikleikum í innviðum sem það leiddi í ljós. Það átak hefur meðal annars falist í aðgerðum til að flýta og gera skilvirkari málsmeðferð skipulags og umhverfismats stórra flutningslína raforku. Eins er komin vel á veg endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum, þar sem hefur náðst góður samhljómur um megináherslur sem miða í senn að aukinni skilvirkni í ákvarðanatöku og að tryggja lýðræðislega aðkomu borgaranna að undirbúningi skipulagsákvarðana. Þá hefur Alþingi til meðferðar frumvarp til breytinga á skipulagslögum þar sem kynnt er til sögunnar framfaraskref í framkvæmd skipulagsmála – landfræðileg samráðs- og gagnagátt sem halda mun utan um kynningu og samráð um skipulag, umhverfismat og framkvæmdaundirbúning um allt land.

Í árslok blasa þó auðvitað áfram við ýmis verkefni sem væru til þess fallin að þróa áfram og bæta stjórnkerfi skipulagsmála, enda verður það seint fullskapað í endanlegri mynd. Meðal annars er tilefni til að yfirfara og rýna lagaumgjörð um ákvarðanatöku um orkunýtingu. Þar vísa ég sérstaklega til laga um rammaáætlun. Í landi með gnótt tækifæra til orkunýtingar, en sem býr jafnframt yfir miklum verðmætum sem felast í landslagi og ósnortinni náttúru, er sérstaklega mikilvægt að lagaumgjörð og stjórnsýsla skili samfélaginu sem bestum ákvörðunum um þessi efni – skilvirkt, lýðræðislega og byggt á sterkum faglegum grunni. Með þessum orðum er hvorki sagt að rammaáætlun í núverandi mynd sé rétta eða ranga leiðin í þessum efnum, heldur eingöngu það að nokkuð brokkgeng vegferð þeirrar áætlanagerðar á undanförnum árum, sem og það að enn er ólent hvernig vindorkunni verði best fyrir komið í því regluverki, gefur tilefni til markvissrar og heildstæðrar rýni á því sem virkar og því sem bæta má.

En ég sagði hér í yfirskriftinni, „ný skipulagsöld“. Árið 2021 er liðin öld frá því að Alþingi samþykkti fyrstu skipulagslögin; lög um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Við getum því sagt að með því ljúki fyrstu skipulagsöldinni hér á landi og að við taki ný skipulagsöld. Skipulagskerfi, sem skilgreind eru í skipulagslögum og skipulagsreglugerð, segja fyrir um hvaða stjórnvöld fara með ákvarðanir um uppbyggingu og landnotkun. Líka um það hvernig borgararnir koma að mótun þeirra ákvarðana. Þau segja einnig fyrir um hvaða stjórntækjum er beitt til að setja fram slíkar ákvarðanir – sem í dag eru landsskipulagsstefna, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Og þau setja fram markmið skipulagsgerðar og önnur verkfæri, eins og landnotkunarflokka og fleira. Allt þarf þetta að endurspegla þann veruleika sem við er að fást hverju sinni. Veruleiki skipulagsmála á komandi öld er talsvert annar en sá sem við var að fást á liðinni öld, þegar íslenskt samfélag færðist inn í nútímann með mikilli fólksfjölgun, flutningi fólks úr sveit í bæ og borg og viðamikilli uppbyggingu þorpa, bæja og borgar, hafna, vega og virkjana, framræslu lands til ræktunar og svo mætti lengi áfram telja.

Öldin okkar er allt önnur. Nú þarf samfélagssamtalið og samfélagsákvarðanir um uppbyggingu byggðar og bæjarrýma og nýtingu lands að taka útgangspunkt í öðrum breytum og öðrum hreyfiöflum. Í mannfjölda sem er hlutfallslega að eldast, en sem um leið, ótengt aldri, hrjáist sífellt meira af lífsstílstengdum sjúkdómum. Í fjórðu iðnbyltingunni sem felur í sér flutning okkar í svo mörgu tilliti úr raunheimum yfir í netheima og mun hafa gríðaráhrif á allt mögulegt í skipulagi byggðar – rýmisþörf og nýtingu húsnæðis, fyrirkomulag og rýmisþörf samgangna og mannleg samskipti og mannlíf í borg og bæ. Og síðast en ekki síst loftslagsvánni, sem við þurfum að draga úr allt hvað við getum með skipulagsaðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggð, samgöngum og landi, og bregðast um leið með viðeigandi hætti við afleiðingum loftslagsbreytinga, eins og hækkun sjávarborðs og öfgum í veðurfari. Allt eru þetta atriði sem við þurfum að tryggja að skipulagsgerð nú og á komandi öld setji á oddinn, því þetta eru atriði sem útfærsla hins byggða umhverfis er í senn háð og getur haft svo mikil áhrif á.

Á komandi ári er því tilefni til að efna til samtals um það hvort skipulagslöggjöfin okkar, sem á að mörgu leyti rætur og grundvöll í lögunum góðu um skipulag kauptúna og sjávarþorpa frá 1921, þarfnast uppfærslu til að takast sem best á við þessi fyrirsjáanlegu viðfangsefni og áskoranir skipulagsmálanna í nútíð og framtíð. Jafnframt mun komandi ár vonandi færa okkur samþykkt Alþingis á nýrri landsskipulagsstefnu þar sem settar eru fram skipulagsáherslur fyrir nútíð og framtíð um skipulag byggðar og landnýtingar með tilliti til loftslagsmála, landslags og lýðheilsu. Tillaga þess efnis er til kynningar á vegum Skipulagsstofnunar nú við áraskiptin og umhverfis- og auðlindaráðherra áformar að leggja hana fram til samþykktar á Alþingi á vorþingi.

Að endingu er ekki hægt að kveðja árið 2020, án þess að senda Seyðfirðingum hlýja stuðningskveðju í þeirri baráttu sem þeir hafa átt í nú yfir hátíðirnar við óblíð náttúruöfl. Þær hamfarir eru okkur áminning um það hvernig við þurfum sífellt að vera meðvituð um slíkar hættur þegar við setjum niður byggð og innviði. Jafnframt hversu mikilvægt er, þegar stundir fyrsta viðbragðs eru liðnar hjá, að farið sé fljótt í að marka framtíðarásýnd og nýtingu þess svæðis sem varð undir aurflóðunum og liggur í hjarta þessa fallega bæjar. Þar tel ég að skipulagsyfirvöld á landsvísu eigi að koma að með stuðningi við sveitarstjórn Múlaþings og heimastjórn Seyðisfjarðar.

Gleðilegt ár 2021!

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir,
forstjóri Skipulagsstofnunar