Fréttir


  • Skipulagsgátt

13.7.2021

Skipulagsgátt í undirbúningi

Alþingi samþykkti í liðnum mánuði breytingar á skipulagslögum sem kveða á um að Skipulagsstofnun skuli starfrækja landfræðilega gagna- og samráðsgátt um skipulag, umhverfismat og framkvæmdaleyfi. Gáttin, sem kölluð hefur verið skipulagsgátt, verður öllum opin án endurgjalds og mun bæta til muna gegnsæi og aðgengi að upplýsingum um skipulagsmál og einstakar framkvæmdir.

Í skipulagsgáttinni verða birt gögn um skipulagsmál, umhverfismat og leyfisveitingar jafnóðum og þau verða til, auk umsagna og athugasemda frá opinberum umsagnaraðilum, almenningi og hagsmunaaðilum sem berast við kynningu framangreindra gagna. Umhverfis- og auðlindaráðherra er falið að setja nánari ákvæði um gáttina í reglugerð.

Nýsamþykkt lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana fjalla einnig um gáttina, en samkvæmt þeim ber að birta í gáttinni öll gögn, ákvarðanir og umsagnir vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana og leyfa til framkvæmdar. Sjá nánari umfjöllun um nýju lögin um umhverfismat hér.

Skipulagsstofnun hefur þegar hafið undirbúning fyrir smíði gáttarinnar en ljóst er að hún kallar á umfangsmikla hönnunar- og forritunarvinnu, sem unnin verður í samstarfi og samráði við ýmsa aðila sem starfa að skipulags- og umhverfismatsverkefnum á ólíkum vettvangi. Gert er ráð fyrir að skipulagsgáttin taki til starfa í desember 2022.

Fjölþættur ávinningur skipulagsgáttar

Eitt af meginmarkmiðum gáttarinnar er að auka gagnsæi og aðgengi að gögnum sem tilheyra einstökum málum við skipulagsgerð, umhverfismat og undirbúning framkvæmda. Þannig má bæta yfirsýn og auðvelda skipulag verkefna og samskipti, auk þess að koma í veg fyrir tvíverknað og hraða afgreiðsluferlum. Til lengri tíma litið er talið að gáttin geti sparað umtalsverða fjármuni með auknu vinnuhagræði hjá bæði stjórnvöldum og einkaaðilum.

Skipulagsgáttin er liður í þeirri þróun sem nú stendur yfir við að efla rafræna stjórnsýslu og stafræna þjónustu stofnana ríkisins. Vonast er til þess að stafrænt opið aðgengi að gögnum stuðli að aukinni þátttöku almennings í málsmeðferð skipulags og umhverfismats og vinni þannig að þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett sér á grunni Árósasamningsins.

 

Mynd: Silvaborn – Dreamstime.com