Fréttir


  • Dreamstime_xxl_49801568

1.12.2021

Skipulagsmál færast frá umhverfis- til innviðaráðherra

Með nýrri ríkisstjórn, sem tilkynnt var um í byrjun vikunnar, færist Skipulagsstofnun og ábyrgð á skipulagsmálum frá umhverfis- og auðlindaráðherra til innviðaráðherra.

Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarráðsins sem birtur var 28. nóvember sl. færist Skipulagsstofnun, skipulagslög og lög um skipulag haf- og strandsvæða, undir nýtt embætti innviðaráðherra, en heyrðu áður undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Umhverfismat framkvæmda og áætlana mun áfram heyra undir umhverfisráðuneyti, en Skipulagsstofnun annast framfylgd laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana eins og verið hefur.

Skipulagsstofnun og forveri hennar, embætti skipulagsstjóra ríkisins, og sú löggjöf sem stofnunin fer með, hefur heyrt undir umhverfisráðuneytið nær frá stofnun þess árið 1990. Stofnunin heyrði áður undir félagsmálaráðuneyti, sem á þeim tíma fór einnig með málefni sveitarfélaga, byggðamál og húsnæðismál.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, segir þessar breytingar fela í sér spennandi tækifæri í þeirri síkviku gerjun sem skipulagsmál þurfa að vera. „Skipulagsgerð varðar marga málaflokka, meðal annars þá sem heyra undir nýtt innviðaráðuneyti – samgöngumál, sveitarstjórnarmál, húsnæðismál og byggðamál. Sameining þessara málaflokka undir sama ráðuneyti mun án efa gefa aukinn slagkraft til að tengja saman stefnu og áherslur á þessum sviðum, ekki síst hvað varðar samþætt byggðar- og samgönguskipulag. Eftir sem áður verður mikilvægt að halda góðum tengslum við málaflokka sem snerta beint mótun og framfylgd skipulags, en heyra undir önnur ráðuneyti. Ég nefni í því sambandi sérstaklega loftslagsmálin, en einnig orkumál, náttúruvá, landslagsmál, skógrækt og fiskeldi, svo dæmi séu tekin. Skipulagsmál eru nú einu sinni þeirrar náttúru að þau hafa snertifleti við meira og minna alla málaflokka sem stjórnarráðið fer með.“

Skipulagsstofnun þakkar fyrir gott samstarf með ráðherrum, starfsfólki og stofnunum umhverfisráðuneytisins síðastliðna þrjá áratugi; tíma sem einkennst hefur af framþróun á sviði skipulagsmála; og væntir áfram góðs samstarfs við þann hóp þótt stofnunin hafi nú vistaskipti, frá umhverfisráðuneyti til innviðaráðuneytis.