Fréttir


6.11.2023

Staðfesting á breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna Fjarðarheiðaganga héraðsmegin

Skipulagsstofnun staðfesti 6. nóvember 2023, breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 sem samþykkt var í sveitarstjórn 13. september 2023.

Í breytingunni felst stefnumörkun um breytta legu Fjarðarheiðarganga með gangamunna við Dalhús. Á sveitarfélagsuppdrætti er hringvegurinn færður suður fyrir þéttbýlið á Egilsstöðum. Núverandi vegur um Egilsstaðaháls er aflagður og vegurinn færður nær Eyvindará en núverandi vegi um Fjarðarheiði verður haldið við sem landsvegi. Við gangamunnann verður skilgreint efnislosunarsvæði og athafnasvæði. Á þéttbýlisuppdrætti er Fagradalsbraut skilgreind sem innanbæjargata auk þess sem ný gata verður lögð frá athafnasvæði við Miðás að hringvegi til að draga úr umferð um Fagradalsbraut. Þá eru gerðar minniháttar breytingar á þéttbýlismörkum og landnotkun innan þéttbýlisins til aðlögunar að veglínunni.

Málsmeðferð var samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga.

Hægt verður að nálgast aðalskipulagsbreytinguna á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar og í Skipulagsgátt þegar breytingin hefur öðlast gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.