Fréttir


  • Skipulagsgátt

29.11.2021

Stafrænt aðalskipulag

Gagnalýsing og leiðbeiningar

Skipulagsgerð er líkt og flest annað á hraðri stafrænni vegferð. Samkvæmt skipulagslögum skal vinna skipulag á stafrænu formi og skila þannig til Skipulagsstofnunar. Ákvæði skipulagslaga taka gildi í áföngum. Kröfur um stafrænt aðal- og svæðisskipulag hafa þegar tekið gildi, en kröfur um gerð stafræns deiliskipulags miða við áramótin 2024-2025.

Stafrænt skipulag felur í sér að skipulagsuppdrættir eru unnir í landupplýsingakerfi þar sem stefna og skipulagsákvæði sem uppdrátturinn endurspeglar eru vistuð í töflu sem tengd er afmörkun á uppdrættinum. Þetta felur í sér nýjar aðferðir við gerð skipulagsuppdrátta sem skipulagsráðgjafar og -hönnuðir þurfa að tileinka sér. Til að tryggja samræmd vinnubrögð og farsæla innleiðingu stafræns skipulags hefur Skipulagsstofnun gefið út gagnalýsingu og leiðbeiningar um gerð stafræns aðalskipulags.

Gagnalýsing

Gagnalýsing um stafrænt aðalskipulag má segja að sé nokkurskonar staðall þar sem lýst er þeim kröfum sem gerðar eru til tilhögunar gagna og upplýsinga í stafrænu aðalskipulagi. Tilgangur hennar er að upplýsa alla notendur um innihald gagna í stafrænu aðalskipulagi, jafnt þá sem koma til með að vinna að aðalskipulagi, þá sem munu skoða gögnin í vefsjá, þegar þau verða gerð aðgengileg á netinu, og einnig þá sem koma til með að hlaða gögnum niður til að nýta þau við ýmsar greiningar á landnotkun, kortagerð og fleira.

Leiðbeiningar

Auk gagnalýsingar hafa verið gefnar út leiðbeiningar um gerð stafræns aðalskipulags sem eru fyrst og fremst ætlaðar þeim sem koma að gerð aðalskipulags, svo sem skipulagsfulltrúum sveitarfélaga og skipulagsráðgjöfum. Í leiðbeiningum er fjallað um hvað felst í gerð stafræns aðalskipulags, farið ítarlega yfir efni gagnalýsingar og hvernig gögn stafræns aðalskipulags eru unnin.

Miðlun stafræns aðalskipulags

Með því að vinna aðalskipulag á samræmdan, stafrænan hátt og hýsa gögnin í miðlægum gagnagrunni fæst betra utanumhald um skipulagsgögnin auk þess sem gæði og notagildi þeirra eykst til muna. Þegar aðalskipulag allra sveitarfélaga verður komið á samræmt stafrænt form fæst heildaryfirsýn yfir skipulagsákvarðanir fyrir landið allt, óháð sveitarfélagamörkum.

Fyrst um sinn verða stafrænir aðalskipulagsgrunnar sem berast Skipulagsstofnun aðgengilegir í Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar, en fyrirhugað er að gera stafrænt aðalskipulag aðgengilegt til skoðunar og niðurhals á gagnvirkan hátt í sérstakri vefsjá. 

Stafraent_skipulag

Dæmi sem sýnir hvernig upplýsingar og skipulagsákvæði um hvern landnotkunarreit eru sett fram í töflu sem er tengd skipulagsuppdrættinum í stafrænu aðalskipulagi.