Fréttir


  • Miðbær Hafnarfjarðar

14.4.2016

„Það verður eigi gengið að skipulagsgerð eins og hverju einföldu verki“

Ávarp Ásdísar Hlakkar Theodórsdóttur, skipulagsfræðings og forstjóra Skipulagsstofnunar flutt á afmælisráðstefnu Félags íslenskra náttúrufræðinga 8. apríl 2016.

Hvað felst í því að sýsla við skipulagsgerð? Það felur í sér marga og ólíka verkþætti. Það þarf að greina aðstæður á því landsvæði sem unnið er með og forsendur fyrir skipulagsgerð á svæðinu og þær geta varðað margt – staðhætti, náttúrufar, byggð, sögu, samfélag og efnahag. Það þarf að standa fyrir samráði við íbúa og ýmsa aðra hagsmunaaðila og stjórnvöld um greiningu aðstæðna og hugmyndir fyrir framtíðina. Það kann að þurfa sérstaklega að leysa úr tilteknum ágreiningsmálum. Það þarf að undirbúa og vinna úr pólitískum ákvörðunum sem teknar eru í skipulagsferlinu. Það þarf að móta sjálfa skipulagstillöguna, greina þá valkosti sem koma til greina um þróun viðkomandi svæðis og útfæra síðan endanlega skipulagstillögu og formúlera þar í orð og uppdrætti stefnu, ákvæði og skilmála sem miðla og útfæra ákveðna sýn fyrir svæðið, sem verður síðan lögð til grundvallar fyrir uppbyggingu og þróun þess þegar skipulagið hefur verið samþykkt. Og þessi skref og vinnubrögð eru hliðstæð, hvort sem unnið er að áætlanagerð á landsvísu eða fyrir einstaka landshluta, sveitarfélög, bæjarhluta eða minni reiti – og hvort sem unnið er í þéttbýli eða dreifbýli, byggð eða óbyggðum.

Eins og væntanlega má vera ljóst af þessari þulu er skipulagsgerð í eðli sínu þverfaglegt verkefni. Á mismunandi stigum vinnunnar er þörf á ólíkri og fjölbreyttri fagþekkingu.

 

Stétt með stétt

En hvað hefur það í för með sér fyrir störf þeirra sérfræðinga sem að koma, að þetta er þverfaglegt viðfangsefni? Jú, þar koma þá ólíkar fagstéttir að og leggja í púkk ólíka sérþekkingu. Þegar best tekst til verður þetta samtal og samspil ólíks kenningabakgrunns, faglegs þankagangs og vinnubragða til þess að við sjáum einn plús einn verða þrjá – að úr verður gerjun sem skilar meiru en samsvarar því sem hver og einn lagði af mörkum. En þá er líka mikilvægt að hver fagstétt sé sér meðvituð um hvaða sérþekkingu hún leggur á borð með sér og hvað liggur á jaðri og utan við hennar fagþekkingu. Með öðrum orðum, skýr fagleg sýn hvers og eins og virðing fyrir annarri sérþekkingu er lykill að góðum árangri.  

En það sem gerir starf skipulagsfræðingsins ögrandi og spennandi er ekki bara þetta, á stundum, vandmeðfarna en um leið gefandi og skemmtilega samstarf ólíkra fagheima. Skipulagsfræðingurinn starfar líka gjarnan í mikilli nánd við stjórnmálamenn og pólitík.

 

Fagfólk og stjórnmálamenn

Og hvað hefur það í för með sér fyrir tilveru sérfræðingsins, að vera í mikilli nánd við pólitíkina? Í því sambandi – sambandi skipulagsfræðingsins og stjórnmálamannsins - reynir á að báðir aðilar þekki og fylgi þeim mörkum sem liggja á milli stjórnmála og stjórnsýslu. Hlutverk sérfræðingsins þar er að skýra og upplýsa; að leggja til hlutlausa ráðgjöf byggða á sinni sérfræðiþekkingu. Það sem kannski gerir þetta samspil snúnara þegar kemur að skipulagsmálum, heldur en þegar um að ræða tæknilegri viðfangsefni, er að í leiðarstefum kenninga í skipulagsfræði, sem skipulagsfræðingurinn hefur tileinkað sér í sínu námi og faglegri þjálfun, felast skýr og afdráttarlaus gildi um almannahagsmuni. Þannig göngum við út frá því að öll okkar ráðgjöf í skipulagsmálum, hvort sem hún lítur að byggingarheimildum, fyrirmælum um útlit og hönnun bygginga eða takmarkanir á byggingarheimildum til dæmis vegna verndarsjónarmiða, þurfi að eiga sér grundvöll í því að viðkomandi inngrip séu talin viðeigandi eða nauðsynleg vegna almennra hagsmuna samfélagsins. Og það liggur væntanlega í augum uppi að sérfræðigrein sem fæst við slíkar spurningar og hefur þennan faglega grundvöll, hún er í mikilli nánd við pólitíska stefnumótun og starf kjörinna fulltrúa, hvort sem það er við stjórn landsins eða í sveitarstjórnum.

Þegar maður er staddur í þessari hringiðu getur verið gott að leita á vit siðfræðinnar. Páll Skúlason heitinn, skrifaði í riti sínu Pælingar II:

„Sterk siðferðisvitund og brjóstvitið eitt duga oft skammt þegar greina þarf og meta flóknar félagslegar aðstæður þar sem mannlegar hvatir takast á og lífsverðmæti eru í húfi. Þá reynir verulega á það að geta skoðað aðstæðurnar undir ólíkum sjónarhornum, sett sig í spor annarra og síðast en ekki síst tekið rökstudda afstöðu: geta gert sjálfum sér og öðrum grein fyrir forsendum þeirra ákvarðana sem maður tekur. ...“

Fagfólk og almenningur

En vinna skipulagsfræðinga er ekki bara í mikilli nánd við stjórnmálamenn, hún er líka og þarf að vera í mikilli nánd við almenning. Og það samspil, getur eins og sambandið við stjórnmálamennina, verið flókið og vandmeðfarið. Í því felst samspil þess að  byggja á og nýta sérþekkingu og sérhæfingu sérfræðinga í skipulagsgerð og þess mikilvæga atriðis að hagsmunaaðilar, eins og til dæmis íbúar á viðkomandi svæði, hafi rödd í skipulagsvinnunni og geti komið að hugmyndum og tekið þátt í umræðu um sögu svæðisins, umhverfisgæði, vandamál, hugmyndir að lausnum o.s.frv.

En þarna, rétt eins og vikið var að í upphafi að það er mikilvægt að þær sérfræðistéttir sem koma að skipulagsvinnu þekki vel hvaða sérfræðiþekkingu þær leggja til og hvar mörk hennar liggja gagnvart þekkingu og nálgun annarra fagsviða, þá er mikilvægt þegar kemur að samráði við almenning og aðra hagsmunaaðila að skilja á milli hlutverks þeirra sem vinna að verkefninu á grundvelli sérhæfingar sem byggir á áralangri skólun og þjálfun í kenningum og aðferðum og þess mikilvæga hlutverks sem aðrir leikendur í skipulagsverkefninu gegna.

Það verður eigi gengið að skipulagsgerð eins og hverju einföldu verki

Þegar við horfum til verkefna samtímans og næstu ára á sviði skipulagsmála, er ljóst að viðfangsefnin hafa tilhneigingu til að verða flóknari og reyna enn frekar á góða fagþekkingu þeirra sérfræðinga sem að koma. Hér eftir sem hingað til fáumst við skipulagsfræðingar við undirbúning pólitískra ákvarðana sem skipta samfélagið miklu og mikilvægt að þær séu studdar sem bestri og traustastri faglegri greiningu og leiðsögn.

En ekkert er nýtt undir sólinni og viðfangsefnin eru í grunninn þó ávallt þau sömu. Besti fræðitexti um skipulagsmál sem ritaður hefur verið á íslenska tungu til þessa dags er í mínum huga ritið Um skipulag bæja eftir Guðmund Hannesson lækni, sem kom út fyrir akkúrat einni öld, árið 1916. Ég enda þennan pistil um sérfræðistörf að skipulagsmálum á lýsingu Guðmundar á starfi þess sérfræðings sem fæst við skipulagsgerð, en hann segir:

 

 

Uppdrátturinn af bænum og landinu umhverfis, er að sjálfsögðu sá grundvöllur, sem mikið er bygt á. Á honum má sjá allar vegalengdir, hvar tiltækilegt muni að leggja götur og skipa byggingum eftir halla á landslaginu, hvar hvert hús stendur sem bygt er, o.s.frv. Þegar uppdráttur af höfn og bryggjustæði bætist við, má oft fara mjög nærri um, hversu skipulagið skuli vera, en þó fer því fjarri, að það verði ákveðið til fulls eftir uppdráttum einum. Það er eigi aðeins nauðsynlegt, að vera á sjálfum staðnum meðan undirstaða skipulagsuppdráttar er lögð, heldur þarf sá er uppdráttinn gerir, að margathuga hvern hlut í bænum, verða nauðakunnugur landslagi þar og ástæðum öllum, atvinnurekstri bæjarbúa, áliti framsýnustu manna um framtíðarhorfurnar o.s.frv. Hann verður að lifa sig inn í bæinn, alla erfiðleikana sem við er að stríða og allar framtíðarvonirnar. Það verður eigi gengið að skipulagsgerð eins og hverju einföldu verki. ...“