Fréttir


  • Kort af starfsemi og vernd í Arnarfiði

15.9.2020

Tillaga Hafrannsóknastofnunar að eldissvæðum vegna fiskeldis í Arnarfirði

Umsögn Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun hefur veitt Hafrannsóknastofnun umsögn um tillögu að eldissvæðum vegna fiskeldis í Arnarfirði. Skipulagsstofnun er lögbundinn umsagnaraðili þegar Hafrannsóknastofnun tekur ákvörðun um afmörkun eldissvæða samkvæmt 4. gr. a laga nr. 71/2008 um fiskeldi, með síðari breytingum. Ef strandsvæðisskipulag liggur ekki fyrir á svæðinu, líkt og á við í þessu tilviki, ber Skipulagsstofnun að birta tillögu Hafrannsóknastofnunar opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar og veita þriggja vikna frest til að skila inn athugasemdum áður en stofnunin veitir umsögn til Hafrannsóknastofnunar.

Skipulagsstofnun kynnti tillögu Hafrannsóknastofnunar að eldissvæðum vegna fiskeldis í Arnarfirði þann 3. júlí sl. og var kynningartími til 7. ágúst sl. Alls bárust sextán athugasemdir við tillöguna sem hafðar voru til hliðsjónar við undirbúning umsagnar Skipulagsstofnunar.

Ákvörðun um afmörkun eldissvæða

Með breytingum á lögum um fiskeldi sem tóku gildi árið 2019 er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun ákveði eldissvæði í sjó. Ákvörðun stofnunarinnar er tekin á grundvelli burðarþols og bestu heildarnýtingar mögulegra eldissvæða en einnig skal taka tillit til annarrar starfsemi á svæðinu og fyrirliggjandi umsókna um fiskeldi sbr. reglugerð um fiskeldi nr. 540/2020. Jafnframt skal taka tillit til strandsvæðisskipulags við ákvörðun um eldissvæði, ef það liggur fyrir. Ákvörðunin er forsenda þess að sjávarútvegsráðherra geti úthlutað svæðum til fiskeldis í sjó. Má því segja að ákvörðunin feli í sér afmörkun lóða þar sem fiskeldi getur farið fram.

Tengsl við gerð strandsvæðisskipulags

Skipulagsstofnun vinnur nú fyrir hönd svæðisráða á Vestfjörðum og Austfjörðum að strandsvæðisskipulagi fyrir svæðin. Í strandsvæðisskipulagi skal móta stefnu og ákvæði um ráðstöfun alls þess svæðis sem strandsvæðisskipulagið nær til. Þar er tekin afstaða til nýtingar og verndar haf- og strandsvæða og til samspils ólíkrar nýtingar. Það getur meðal annars varðað orkuvinnslu, mannvirkjagerð, fiskeldi, efnistöku, samgöngur, vernd, útivist og ferðaþjónustu. Í skipulagsvinnunni er því horft heildstætt á margvíslega hagsmuni og sjónarmið sem vega þarf saman við ákvörðun um framtíðarnýtingu viðkomandi fjarða og flóa. Strandsvæðisskipulag skapar þannig umgjörð um starfsemi og vernd á skipulagssvæðinu í heild. Framangreind umsögn til Hafrannsóknastofnunar byggir á gögnum úr yfirstandandi vinnu, einkum með tilliti til mögulegs ósamræmis við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir við vinnslu strandsvæðisskipulags fyrir Vestfirði og hugsanlegra áhrifa af tillögu Hafrannsóknastofnunar.

Umsögn Skipulagsstofnunar um tillögu Hafrannsóknastofnunar

Innkomnar athugasemdir um tillögu Hafrannsóknastofnunar