Fréttir


  • Adalskipulagssja

31.1.2023

Tímamót í aðgengi og skilum á aðalskipulagsáætlunum

Þann 1. janúar 2020 tók gildi ákvæði 46. gr. skipulagslaga um að skipulagsáætlanir skuli unnar á stafrænu formi og þeim skilað til Skipulagsstofnunar. Innleiðingin hefur gengið vel. Nú má nálgast stafrænt aðalskipulag 50 sveitarfélaga á nýrri aðalskipulagssjá sem Skipulagsstofnun tók í notkun í nóvember 2022. Í byrjun desember var sveitarfélögum einnig tilkynnt um að allar breytingar á aðalskipulagi sem undirbúningur hefst að eftir 1. janúar 2023 skuli einnig skila stafrænt. 

Stafvæðing skipulagsáætlana samkvæmt skipulagslögum

Samkvæmt 1. mgr. 46 gr. skipulagslaga nr. 123/2010, skulu skipulagsáætlanir unnar á stafrænu formi og skilað til Skipulagsstofnunar. Lagaákvæðið tók gildi fyrir svæðisskipulag og aðalskipulag þann 1. janúar 2020 og tekur gildi fyrir deiliskipulag 1. janúar 2025. Skipulagsstofnun hefur þegar gefið út leiðbeiningar og samræmda gagnalýsingu fyrir aðalskipulag og undirbúningur er hafinn að gerð sambærilegra leiðbeininga og samræmdrar gagnalýsingar fyrir deiliskipulag. Lögð er áhersla á þétt samráð og samvinnu við sveitarfélög og fagfólk í skipulagsmálum við undirbúning og innleiðingu stafræns deiliskipulags.

Innleiðing stafræns svæðis- og aðalskipulags hefur gengið vel. Nú þegar hafa um tíu sveitarfélög skilað endurskoðuðu aðalskipulagi á stafrænu formi og sex sveitarfélög til viðbótar eru í lokaúrvinnslu. Til að flýta fyrir innleiðingunni hefur Skipulagsstofnun auk þess fært aðalskipulag nokkurra sveitarfélaga, sem myndu ólíklega hefja endurskoðun aðalskipulags á næstu misserum, yfir á stafrænt form. Stafrænu gögnin munu nýtast sveitarstjórnum viðkomandi sveitarfélaga sem grunnur fyrir breytingar á aðalskipulagi og þegar kemur að heildarendurskoðun aðalskipulags.

Aðalskipulagsjá og gagnagrunnur um stafrænt aðalskipulag

Í skipulagslögum er jafnframt kveðið á um að Skipulagsstofnun skuli gera skipulagsáætlanir á stafrænu formi aðgengilegar. Skipulagsstofnun hefur opnað aðalskipulagssjá, vefsjá fyrir stafrænt aðalskipulag sem finna má á vef stofnunarinnar. Þar eru nú birtar þær aðalskipulagsáætlanir sem skilað hefur verið til Skipulagsstofnunar á stafrænu formi auk þeirra aðalskipulagsáætlana sem stofnunin hefur fært yfir á stafrænt form. Í vefsjánni verður að finna stafræn gögn aðalskipulags allra sveitarfélaga á landinu. Aðgangur að aðalskipulagsjánni er gjaldfrjáls og er öllum opinn en þar er hægt að skoða og hlaða niður stafrænum gögnum sveitarfélaga. Öll stafræn gögn í aðalskipulagssjá verða því aðgengileg á vefnum, hvar og hvenær sem er. Um er að ræða mikið hagræði fyrir alla hagsmunaaðila, sér í lagi framkvæmdaaðila, sveitarstjórnir og almenning.


Adalskipulagssja2Hér má sjá aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss eins og það birtist í aðalskipulagssjá. 


Breytingar á aðalskipulagi skulu einnig unnar með stafrænum hætti

Til þessa hefur Skipulagsstofnun séð um að uppfæra þær aðalskipulagsáætlanir sem stofnunin hefur fært yfir á stafrænt form og þær eru því birtar í aðalskipulagssjánni með áorðnum breytingum. Frá 1. janúar 2023 varð breyting þar á. Það er nú á ábyrgð hverrar sveitarstjórnar að viðhalda stafrænu aðalskipulagi og skulu allar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélaga, sem hefjast eftir 1. janúar 2023, unnar og skilað á stafrænu formi.

Til frekari upplýsinga má benda á að leiðbeiningar og gagnalýsing fyrir stafrænt aðalskipulag má finna á heimasíðu Skipulagsstofnunar.