Fréttir


  • Kápa Um skipulag bæja

14.12.2016

Um skipulag bæja - Aldarspegill

Í tilefni af þeim tímamótum að 100 ár eru liðin frá því að ritið "Um skipulag bæja" eftir Guðmund Hannesson lækni kom út hefur Skipulagsstofnun og Hið íslenska bókmenntafélag gefið út ritið í sinni upphaflegu mynd ásamt ritgerðarsafni, „Aldarspegill“, þar sem fjallað er um ýmsar hliðar skipulagsmála út frá skrifum Guðmundar og skoðað hversu vel hugmyndir hans hafa staðist tönn tímans.

Um er að ræða tvö bindi sem eru gefin út saman í öskju.

Rit Guðmundar hafði með margvíslegum hætti áhrif á þróun skipulagsmála hér á landi og nýttist sem leiðbeiningarit í þeirri miklu skipulagsvinnu sem unnin var fyrir þéttbýlisstaði landsins fram að seinna stríði. Þó mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan rit Guðmundar kom út, og bæir landsins tekið breytingum, á rit hans ennþá fullt erindi í umræðu um skipulagsmál.

Í "Aldarspegli" er beint sjónum að ólíkum viðfangsefnum skipulagsmála sem Guðmundur fjallaði um í riti sínu. Ásdís Hlökk Theodórsdóttir fjallar um bæjarmynd og byggðamynstur, Pétur H. Ármannsson um húsagerð og hönnun, Salvör Jónsdóttir skoðar félagslega og efnahagslega þætti skipulagsmála og Dagur B. Eggertsson skrifar um tengsl lýðheilsu og skipulags. Loks bregða Páll Pétursson og Sigrún Magnúsdóttir ljósi á persónu og lífshlaup Guðmundar Hannessonar.

Ritstjórar eru Ásdís Hlökk Theodórsdóttir og Sigurður Svavarsson. Bókaútgáfan Opna bjó verkið til prentunar. Líba Ásgeirsdóttir annaðist hönnun og umbrot.

Hið íslenska bókmenntafélag annast dreifingu og sölu, en útgáfan er fáanleg í helstu bókaverslunum.

Um útgáfuna á Facebook.