Fréttir


  • Kápa Um skipulag bæja

19.12.2018

„Um skipulag bæja – Aldarspegill“ nú aðgengilegt í vefútgáfu

„Um skipulag bæja – Aldarspegill“, sem gefið var út á 100 ára útgáfuafmæli rits Guðmundar Hannessonar læknis „Um skipulag bæja“ árið 2016, er nú aðgengilegt í vefútgáfu. „Um skipulag bæja – Aldarspegill“ hefur að geyma endurútgáfu á riti Guðmundar ásamt greinasafninu „Aldarspegill – samtal við Guðmund Hannesson“ þar sem Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, Pétur H. Ármannsson, Salvör Jónsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Sigrún Magnúsdóttir og Páll Pétursson fjalla um framlag Guðmundar og gaumgæfa hvernig hugmyndir hans hafa staðist tímans tönn í ljósi þróunar skipulagsmála hér á landi liðna öld.  

Um skipulag bæja 

Aldarspegill 

Rit Guðmundar „Um skipulag bæja“ hafði með margvíslegum hætti áhrif á þróun skipulagsmála hér á landi og nýttist sem leiðbeiningarit í þeirri miklu skipulagsvinnu sem unnin var fyrir þéttbýlisstaði landsins fram að seinna stríði. Þó mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan rit Guðmundar kom út, og bæir landsins tekið breytingum, á rit hans ennþá fullt erindi í umræðu um skipulagsmál.

Í „Aldarspegli“ er beint sjónum að ólíkum viðfangsefnum skipulagsmála sem Guðmundur fjallaði um í riti sínu. Ásdís Hlökk Theodórsdóttir fjallar um bæjarmynd og byggðamynstur, Pétur H. Ármannsson um húsagerð og hönnun, Salvör Jónsdóttir skoðar félagslega og efnahagslega þætti skipulagsmála og Dagur B. Eggertsson skrifar um tengsl lýðheilsu og skipulags. Loks bregða Páll Pétursson og Sigrún Magnúsdóttir ljósi á persónu og lífshlaup Guðmundar Hannessonar.

Ritstjórar útgáfunnar eru Ásdís Hlökk Theodórsdóttir og Sigurður Svavarsson.