Fréttir


12.9.2019

Umhverfismat – er annar valkostur?

Höfundur: Ásdís Hlökk Theodórsdóttir. Grein birt í Viðskiptablaðinu 12.9.2019

Það er vel þekkt að með kappsemi og kunnáttu getum við mannfólkið náð stórkostlegum árangri. Jafnframt vitum við af reynslunni að framtakssemi okkar hafa fylgt neikvæðar afleiðingar fyrir umhverfið, sem við sáum ekki fyrir. Áhrif sem hafa jafnvel verið stórtæk og óafturkræf.

Til að sjá við þessu, höfum við komið okkur upp sérstöku verklagi og ferlum við undirbúning framkvæmda, svokölluðu umhverfismati, sem er þrautreynd aðferðafræði og nálgun sem stuðst hefur verið við um allan heim við undirbúning stórframkvæmda og landnýtingar um áratuga skeið. Með umhverfismati reynum við að varpa ljósi á líkleg áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á umhverfi og samfélag áður en ákvarðanir um að hefja þær eru teknar. Þannig er hægt að draga fyrirfram úr neikvæðum áhrifum með því að grípa til mótvægisaðgerða eins og til dæmis að breyta hönnun eða staðsetningu mannvirkja. Niðurstöður umhverfismats geta líka leitt til þess að fallið sé frá viðkomandi framkvæmdaáformum. Fiskeldi, verksmiðjurekstur, virkjanir, háspennulínur, vegagerð, hafnargerð og efnistaka eru dæmi um stærri framkvæmdir sem undirgangast umhverfismat, áður en leyfi til þeirra eru veitt.

Gagnrýni og deilur

Þrátt fyrir að við séum flest, ef ekki öll, sammála um nauðsyn þess að draga úr neikvæðum og jafnvel óafturkræfum áhrifum framkvæmda veldur þessi varúðarráðstöfun, sem umhverfismatið er, reglulega deilum og gagnrýni í opinberri umræðu. Framkvæmdaraðilar halda því fram að umhverfismat valdi þeim óþarfa töfum og kostnaði og stjórnmálamenn stökkva á stundum einnig á þann vagn. Á hinum enda umræðunnar sjáum við umhverfisverndarfólk beita umhverfismatinu í baráttu gegn tilteknum framkvæmdum, eða bera brigður á trúverðugleika þess umhverfismats sem framkvæmdaraðilar hafa lagt fram, á þeirri forsendu að ekki sé rétt staðið að umhverfismatinu, að almenningur eigi ekki rödd í umhverfismatsferlinu eða að raunhæfir valkostir við áform framkvæmdaraðila hafi ekki verið skoðaðir.

Þannig verður sjálft umhverfismatið á stundum miðpunktur ágreinings og kærumála með tilheyrandi opinberri fjölmiðlaumræðu sem hefur tilhneigingu til að færast fljótt í skotgrafir og flokkadrætti, með og á móti. Það er hinsvegar mikilvægt að halda því til haga að þetta á fyrst og fremst við um þau tiltölulega fáu mál sem fara í hámæli. Langflest mál eru afgreidd í friði og spekt. Þá eru umhverfisáhrif greind og metin, samráð haft við hagsmunaaðila, vankantar sniðnir af framkvæmdum og útfærsla þeirra og tilhögun höfð þannig að ná megi tilætluðum markmiðum framkvæmdarinnar með sem minnstum neikvæðum áhrifum á umhverfi og samfélag.

Er valkostur?

En er önnur leið? Viljum við sleppa því að meta umhverfisáhrif við undirbúning framkvæmda? Viljum við draga úr tækifærum almennings og umhverfisverndarsamtaka til að koma að málum? Sennilega myndum við öll svara þessum spurningum neitandi.

Með því er hinsvegar ekki sagt að aðferðafræði og tilhögun umhverfismats eins og við þekkjum það sé hafin yfir gagnrýni – langt frá því. Auðvitað þarf reglulega að rýna hvernig svona verkfæri virka; styrkja þá þætti sem hafa reynst vel, en sníða af agnúa. Um þessar mundir er unnið að heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum. Þar gefst tækifæri til að vega og meta hvað hefur gengið vel og hvað má gera betur. Í mínum huga liggja ákveðin sóknarfæri í að samþætta betur gerð skipulags annarsvegar og umhverfismat framkvæmda hinsvegar og að nýta í meira mæli möguleika rafrænnar miðlunar. Það gefur kost á að gera greiningu umhverfisáhrifa, samráð við hagsmunaaðila og kynningu markvissari og að svara um leið gagnrýni á málsmeðferðartíma og kostnað. Að mínu mati þarf umræðumenningin um framkvæmdaundirbúning og umhverfisáhrif einnig að dafna og þroskast.

Lykillinn að farsælli þróun umhverfismats felst í upplýsingu og samtali. Á Umhverfismatsdeginum, málþingi Skipulagsstofnunar sem haldið er föstudaginn 13. september kl. 13-16 í Norræna húsinu gefst tækifæri til að fræðast og ræða um það hvernig við viljum sjá þetta gamalreynda hjálpartæki við undirbúning verklegra framkvæmda skila samfélaginu sem mestu gagni.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir

forstjóri Skipulagsstofnunar