Fréttir


8.5.2023

Umhverfismatsdagurinn verður 8. júní

Árleg ráðstefna um umhverfismat verður í Iðnó

Umhverfismatsdagurinn, árlegt málþing Skipulagsstofnunar um umhverfismat, fer fram í hátíðarsal Iðnó við Vonarstræti 3 í Reykjavík, þann 8. júní næstkomandi. Öll áhugasöm eru hjartanlega velkomin. Einnig verður boðið upp á að fylgjast með í streymi.


Í ár verður Umhverfismatsdagurinn helgaður þætti loftslagsbreytinga þegar kemur að umhverfismati. Á undanförnum árum og áratugum hefur komið sífellt betur í ljós hve mikilvægt er að greina loftslagsáhrif í umhverfismati, hvort sem um er að ræða framkvæmdir eða áætlanir. Efnisval, líftími mannvirkja, staðsetning þeirra, skipulag samgangna eru meðal þátta þar sem hægt er að vanda til verka og vinna að því að takmarka losun.


Við förum því yfir sviðið þegar kemur að framkvæmdum og áætlunum á Íslandi með tilliti til loftslagsáhrifa. Hvernig er hægt að standa betur að mati á áhrifum á loftslag? Við heyrum frá sérfræðingum úr ólíkum áttum og reynum að draga upp stöðuna eins og hún er – með það að markmiði að leita lausna fyrir framtíðina.


Takið daginn frá. Nánari dagskrá verður auglýst von bráðar.