Fréttir


  • Dynjandisheiði

7.7.2020

Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði og Bíldudalsvegur í Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ

Mat á umhverfisáhrifum - álit Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun hefur gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi á Dynjandisheiði. Álitið ásamt matsskýrslu Vegagerðarinnar er aðgengilegt hér.

Fyrirhuguð framkvæmd felst í að endurbyggja hluta Vestfjarðavegar og hluta Bíldudalsvegar, ýmist í núverandi eða nýju vegstæði. Núverandi vegir eru samtals 70 km langir, lagðir malarslitlagi, en nýir vegir verða 63-68 km. Þeir verða lagðir sem heilsársvegir og nýr vegur verður með bundnu slitlagi og uppbyggður með tilliti til snjóa.

Í matsskýrslu Vegagerðarinnar er framkvæmdum skipt í þrjá áfanga og lagt mat á umhverfisáhrif þrettán valkosta um veglínur á þessum þremur áföngum:

Áfangi I, á Vestfjarðavegi frá Hörgsnesi í Vatnsfirði að Tröllahálsi á Dynjandis­heiði. Á þessum kafla er lagt mat á umhverfisáhrif sex valkosta um legu vegarins.

Áfangi II, á Vestfjarðavegi frá Tröllahálsi um Dynjandisheiði og að Mjólkárvirkjun í Borgarfirði. Á þessum kafla er lagt mat á umhverfisáhrif fjögurra mismunandi kosta um veglínur.

Áfangi III, á Bíldudalsvegi frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi. Á þessum kafla lagt mat á umhverfisáhrif fjögurra mismunandi kosta um veglínur.

Skipulagsstofnun telur ljóst að heilsársvegur um Dynjandisheiði kemur til með að fela í sér verulegar samgöngubætur fyrir fjölda fólks á stóru svæði. Saman munu framkvæmdir, sérstaklega á áfanga II og III, fela í sér stórbættar vetrarsamgöngur á milli Ísafjarðardjúps og sunnanverðra Vestfjarða. Skipulagsstofnun tekur undir með Vegagerðinni að áhrif áfanga II og III á samfélag, landnotkun og mannvirki verði talsvert jákvæð, óháð leiðarvali.

Vegkaflinn sem umhverfismatið tekur til er að hluta til innan friðlandsins Vatnsfjarðar, friðlýsts svæðis Dynjanda, svæðis nr. 310 á C-hluta náttúruminjaskrár, Geirþjófsfjarðar, og að hluta til innan verndarsvæðis Breiðafjarðar skv. lögum nr. 55/1995. Þá fer fyrirhugaður vegur um hverfisverndarsvæði H1 í Ísafjarðarbæ. Innan áhrifasvæðis framkvæmdarinnar eru ýmis vistkerfi sem njóta sérstakrar verndar á grundvelli 61. gr. náttúruverndarlaga og einnig er að finna menningarminjar innan áhrifasvæðis framkvæmdarinnar.

Friðlandið í Vatnsfirði - Sá kafli Vestfjarðavegar sem liggur um friðlandið í Vatnsfirði hefur þá sérstöðu, hvað þessa framkvæmd varðar, að vera nú þegar með bundnu slitlagi ásamt því að vera ekki sérstakur farartálmi að vetri. Jákvæð áhrif hvað varðar bættar samgöngur á þessum kafla felast því fyrst og fremst í betri vegi upp á Dynjandisheiði.

Í Vatnsfirði lagði Vegagerðin fram til umfjöllunar og samanburðar veglínur sem fylgja núverandi vegi annars vegar og þvera fjörðinn hins vegar. Við hönnun vega innan mikilvægra náttúruverndarsvæða þarf, að áliti Skipulagsstofnunar, að taka ríkt tillit til verndar­sjónarmiða og gæta þess að framkvæmdir rýri sem minnst verndargildi svæðisins. Að mati Skipulagsstofnunar hafa þau sjónarmið ekki hlotið nægilega vigt við undirbúning Vestfjarðavegar um Vatnsfjörð. Stytting ferðatíma er almennt jákvæð aðgerð en að mati Skipulagsstofnunar eru jákvæð áhrif þess að stytta Vestfjarðaveg með þverun Vatnsfjarðar óveruleg þegar horft er til þeirra samgöngubótar sem framkvæmdin í heild sinni felur í sér annars vegar og gildis þess svæðis sem framkvæmdin mun hafa áhrif á.

Valkostir sem fela í sér þverun Vatnsfjarðar fara um friðland samkvæmt lögum um náttúruvernd og verndarsvæði Breiðafjarðar. Auk beinna áhrifa á landslag og lífríki svæðisins er einnig mikilvægt að skoða mögulega þverun Vatnsfjarðar með tilliti til annarra vegaframkvæmda innan verndarsvæðis Breiðafjarðar, en verði þessi áform að veruleika er ljóst að meirihluta fjarða frá Gilsfirði að Vatnsfirði hefur verið raskað með þverunum eða vegagerð á fyllingum fyrir botni fjarða.

Eitt af markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum er að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda. Eftir samanburð valkosta á áfanga I er það álit Skipulagsstofnunar að veglína A1 í Vatnsfirði, sem fylgir núverandi veglínu, sé besti kosturinn af framlögðum veglínum með tilliti til umhverfisáhrifa og í raun eini kosturinn sem ætti að koma til greina. Að mati Skipulagsstofnunar hefur sá valkostur þó ekki verið útfærður á þann hátt sem gera ætti kröfu um, til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á verndarsvæði Vatnsfjarðar eins og framast er unnt. Skipulagsstofnun telur bæði mögulegt og nauðsynlegt að útfæra þennan valkost frekar með meginhagsmunaaðilum áður en valið er um kosti.

Friðlýst svæði Dynjanda - Önnur helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eru á Vestfjarðarvegi á áfanga II og felast í neikvæðum áhrifum á friðlýst svæði Dynjanda. Þar eru lagðar fram tvær veglínur til samanburðar sem að mati Skipulagsstofnunar hafa báðar talsvert neikvæð áhrif á verndarsvæðið. Skipulagsstofnun tekur ekki afstöðu til þessara valkosta en bendir á að Umhverfisstofnun telur annan kostinn ekki samræmast verndarskilmálum friðlýsts svæðis við Dynjanda.

Rask á lífríki og ásýnd - Framkvæmdunum mun fylgja umtalsvert rask á náttúrulegri strandlengju og lífríki þriggja innfjarða Suðurfjarða Arnarfjarðar ásamt talsverðri ásýndarbreytingu á strandlengju og fjarðarbotnum.

Vegagerðin leggur fram fjölmargar mótvægisaðgerðir við áhrif á þá umhverfisþætti sem fjallað er um í umhverfismatinu og þarf, að áliti Skipulagsstofnunar, að útfæra þær nánar og skilgreina með skýrari hætti ábyrgð með framkvæmd og eftirfylgni þeirra.

Það er í höndum hlutaðeigandi sveitarfélaga (Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar), Umhverfisstofnunar sem leyfisveitanda fyrir framkvæmdum innan friðlýstra svæða, og Vegagerðarinnar að taka afstöðu til framlagðra valkosta og vinna að nánari útfærslu þeirra sem og mögulegra mótvægisaðgerða og vöktunar.