Fréttir


  • Mynd, Umhverfismatsdagurinn 2023með lit og kennimerki Skipulagsstofnunar

13.6.2023

Vel heppnaður umhverfismatsdagur – glærur og upptökur

Umhverfismatsdagurinn, árlegt málþing Skipulagsstofnunar um umhverfismat, var haldið í Hannesarholti þann 8. júní síðastliðinn. Málþingið var vel sótt bæði í sal og streymi. Umhverfismatsdagurinn í ár var helgaður þætti loftslagsbreytinga þegar kemur að umhverfismati. 

Ólafur Árnason, settur forstjóri Skipulagsstofnunar, hóf ráðstefnuna með yfirferð yfir helstu fregnir úr starfi stofnunarinnar síðustu misseri en þar ber hæst opnun Skipulagsgáttar og þjónustusíða fyrir umhverfismat. Von er til þess að Skipulagsgátt muni auka gagnsæi, aðgengi og tækifæri til þátttöku almennings þegar kemur að umhverfismati framkvæmda og áætlana. Joanna Wright, forstöðumaður hjá LUC (Land Use Consultants) ráðgjafastofu í Lundúnum, flutti því næst fróðlegt erindi um vinnulag við umhverfismat á Bretlandseyjum þegar kemur að loftslagsáhrifum. Að því loknu fór Bryndís Skúladóttir hjá VSÓ ráðgjöf yfir hvernig tekið var á áhrifum á loftslag í umhverfismati stækkunar Keflavíkurflugvallar ásamt því að greina frá loftslagsáherslum í Aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040. Eftir hlé fjallaði Alexandra Kjeld hjá Eflu verkfræðistofu um gagnsemi vistferilsgreininga við framkvæmdaundirbúning og mikilvægi þess að huga að kolefnisspori strax á hönnunarstigi, og að endingu fór Sveinn Pálmarsson hjá Vatnaskilum, yfir vatnsrannsóknir, grunnvatnsrannsóknir og möguleg áhrif af vatnstöku nærri strandsvæðum samhliða breytingum á sjávarborði.

Í lok dags sátu í pallborði þau Ólafur, Alexandra og Bryndís ásamt Hlín Gísladóttur, lögfræðingi hjá Umhverfisstofnun og Þórunni Wolfram Pétursdóttur, formanni Loftslagsráðs. Þar sköpuðust góðar og gagnlegar umræður með góðri þátttöku fundargesta. Voru þátttakendur sammála um að full þörf væri á að taka áhrif á loftslag föstum tökum í umhverfismati framkvæmda og áætlana. Ekki sé einungis mikilvægt að upplýsa um loftslagsáhrif framkvæmda og áætlana heldur einnig að draga úr kolefnisspori með því að taka það markvisst með í reikninginn frá hönnunarstigi fram að leyfisveitingu.

Fundarstjóri var Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, sem hélt vel um taumana frá upphafi til enda.

Glærur og upptökur frá deginum má nálgast hér