Fréttir


  • 125

24.10.2023

Vel sóttur Skipulagsdagur að baki

Það var fjölmennt í fyrirlestrarsal Grósku þegar Skipulagsdagurinn fór fram, árlegt málþing Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skipulagsmál.

Fundarstjórar voru Sigurborg Haraldsdóttir og Ari Trausti Guðmundsson og í heildina tóku tæplega 30 manns þátt í dagskrá dagsins, sem frummælendur og þátttakendur pallborðsumræðum.

042

Sigurður Ingi Jóhannsson flutti opnunarávarp.

Að loknu ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, og Ólafs Árnasonar, forstjóra Skipulagsstofnunar, var sjónum beint að hvítbók um landsskipulagsstefnu í fyrstu málstofu dagsins. 

Drög að hvítbók um landsskipulagsstefnu er nú til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda og fór Hólmfríður Bjarnadóttir, skrifstofustjóri húsnæðis- og skipulagsmála, yfir efni hennar og vinnu við undirbúning. Stefnt er að því að leggja fram þingsályktunartillögu um landsskipulagsstefnu byggt á hvítbók í desember og standa vonir til að endurskoðuð landsskipulagsstefna taki gildi á komandi þingvetri. 

085

Hólmfríður Bjarnadóttir sagði frá vinnu við hvítbók um skipulagsmál.

Í pallborðsumræðum tóku þátt áðurnefndur Sigurður Ingi, Guðrún Lára Sveinsdóttir, sviðsstjóri aðalskipulags hjá Skipulagsstofnun, Valgerður Benediktsdóttir, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu.

099

Guðrún Lára, Vigfús, Sigurður Ingi og Valgerður ræða málin í fyrsta pallborði. 

Í annarri málstofu dagsins var fjallað um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og gæði hins byggða umhverfis. Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, fjallaði um verkefni sem unnið er að á sviði húsnæðismála og beindi þar sérstaklega sjónum að stöðu á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og húsnæðisþörf, reynslunni af innleiðingu stafrænna húsnæðisáætlana sveitarfélaganna og tengingu þeirra við skipulagsáætlanir og að samstarfsverkefnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga undir heitinu „einn ferill húsnæðisuppbyggingar“. 

207

Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. 

Hrafnkell Ásólfur Proppé, skipulagsfræðingur, sagði frá einu áhugaverðasta uppbyggingarverkefni næstu ára á höfuðborgarsvæðinu, sem mun eiga sér stað í Keldnalandi, áherslum vinnunnar og næstu skrefum. 

212

Hrafnkell Á. Proppé fór yfir framtíð uppbyggingarverkefnis að Keldum. 

Skipulagsfulltrúar Reykjavíkur, Akureyrar og Kópavogs, þau Björn Axelsson, Pétur Ingi Haraldsson og Auður D. Kristinsdóttir, ásamt forstjóra Skipulagsstofnunar, Ólafi Árnasyni, tóku síðan þátt í pallborði ásamt þeim Önnu Guðmundu og Hrafnkatli um áskoranir og möguleika á aukinni skilvirkni og mikilvægis gæða við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og hverfisheilda.


235

Það sköpuðust oft fjörugar umræður í pallborði. 

Eftir hádegi ávarpaði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, fundinn. Heiða Björg kom víða við í ávarpi sínum um skipulagsmál og lagði fram mikilvægar hugleiðingar um skipulagsvald sveitarfélaga og samkeppnishæfni gagnvart samanburðarþjóðum okkar þegar kemur að uppbyggingu í þéttbýli.

263

Heiða Björg Hilmisdóttir ávarpar fundargesti. 

Í þriðju málstofu dagsins sagði Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofunni, frá samstarfsverkefni Veðurstofunnar, Byggðastofnunar og Skipulagsstofnunar um aðlögun sveitarfélaganna að loftslagsbreytingum. Um er að ræða mikilvægt verkefni með þátttöku sex sveitarfélaga sem mun veita kærkomið leiðbeiningarefni og grunngögn til þessa mikilvæga verkefnis. 

265Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofunni.

Elísabet Pálmadóttir, teymisstjóri hjá Umhverfis,- orku,- og loftslagsráðuneyti kynnti nýlega skýrslu starfshóps um stöðu og áskoranir varðandi hættumat og vöktun náttúruvár, sem er vaxandi og aðkallandi verkefni stjórnvalda og sveitarfélaga í takt við nýjan veruleika með auknum áhrifum loftslagsbreytinga. Í pallborði tóku síðan þátt Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings og Hulda Ragnheiður Árnadóttir, ásamt þeim Önnu Huldu og Elísabetu.

273

Elísabet Pálmadóttir, Björn Ingimarsson og Anna Hulda Ólafsdóttir. 

Á síðustu málstofu dagsins flutti Ester Anna Ármannsdóttir, sviðsstjóri stefnumótunar og miðlunar hjá Skipulagsstofnun, framsögu um skipulag á miðhálendi Íslands. Ester setti þar skipulagsmál bæði í sögulegt samhengi, allt frá fyrsta svæðisskipulagi miðhálendisins, og gaf jafnframt innsýn í áherslur hvítbókar um skipulagsmál. 

287

Ester Anna Ármannsdóttir, sviðsstjóri hjá Skipulagsstofnun. 

Þátttakendur í pallborði voru þau Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri náttúruverndar og grænna áfangastaða hjá Umhverfisstofnun, Kristinn Guðnason, bóndi í Árbæjarhjáleigu í Holtum og Regína Sigurðardóttir, sérfræðingur hjá forsætisráðuneyti. Í umræðum komu fram ýmis sjónarmið um skipulag miðhálendis og ljóst að mikil samstaða er um að standa vel að skipulagi þessa mikilvæga svæðis.

312

Miðhálendið í brennidepli. Regína Sigurðardóttir, Ólafur Árnason, Anna Dóra Sæþórsdóttir, Kristinn Guðnason, Anton Kári Halldórsson, Inga Dóra Hrólfsdóttir og Ester Anna Ármannsdóttir. 

Skipulagsstofnun vill nýta tækifærið og þakka öllum þátttakendum, fundarstjórum, frummælendum, panelistum og gestum, í sal og á veraldarvefnum, fyrir afar ánægjulegan Skipulagsdag. 

320

Ari Trausti Guðmundsson og Sigurborg Haraldsdóttir vöktu mikla lukku sem fundarstjórar. 


Hér að neðan má sjá nokkrar ljósmyndir sem teknar voru í Grósku. Það var Hrafnhildur Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun, sem tók myndirnar. 

249

295

246

248

191

186

189

182

177

059