Fréttir


  • Hverfisfljót

6.7.2020

Virkjun í Hverfisfljóti í Skaftárhreppi, 9,3 MW

Mat á umhverfisáhrifum - Álit Skipulagsstofnunar


Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum 9,3 MW virkjunar í Hverfisfljóti í Skaftárhreppi, samkvæmt lögum nr. 106/2000.

Í matsskýrslunni eru kynnt áform um allt að 9,3 MW virkjun með 800 m langri og 1-3 m hárri stíflu, 2,3 km langri þrýstipípu, um 6,6 km löngum aðkomuvegi, um 750 m2 stöðvarhúsi og aðrennslis- og frárennslisskurðum. Álitið og matsskýrsla framkvæmdaraðila er aðgengileg hér.

Heimssögulegar jarðminjar á ósnortnu svæði

Ljóst er að fyrirhuguð virkjun mun hafa neikvæð áhrif á Skaftáreldahraun. Skaftáreldar í Lakagígum voru eitt mesta eldgos á sögulegum tíma á jörðinni og Skaftáreldahraun er annað af tveimur stærstu hraungosum sem runnið hafa á jörðinni á sögulegum tíma. Verndargildi þess bæði á landsvísu og heimsvísu er hátt og hefur umtalsverða sérstöðu. Hvers kyns rask á hrauninu rýrir verndargildi þess en Skipulagsstofnun telur ekki vera hægt að að horfa til stærðar hraunsins og hlutfallslegs rasks þess líkt og gert er í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Um er að ræða jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar á grundvelli 61. gr. náttúruverndarlaga og forðast ber að raska nema brýna nauðsyn beri til. Ákveðin óvissa er um hve stór hluti þess sandorpinn eða gróinn, en óháð því liggur fyrir að jarðsögulegt mikilvægi gefur því tvímælalaust sérstakt verndargildi umfram flest önnur hraun hér á landi.

Skipulagsstofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir röskun á Skaftáreldahrauni, þ.e. brýna almannahagsmuni, sbr. lögskýringargögn við 61. gr. náttúruverndarlaga. Í ljósi sérstöðu Skaftáreldahrauns verður að gera kröfu um að sýnt sé fram á það með afdráttarlausari hætti í skipulagsgerð vegna framkvæmdaáformanna og áður en kemur til leyfisveitinga.

Framkvæmdirnar eru fyrirhugaðar innan Kötlu jarðvangs sem hefur hlotið viðurkenningu UNESCO sem jarðvangur (Global Geopark) en óhætt er að fullyrða að Skaftáreldahraun er meðal merkustu jarðminja innan hans. Útnefningin felur í sér að svæðið telst hafa mikilvægt jarðfræðilegt gildi á heimsvísu. Skipulagsstofnun telur að horfa verði til þessa þegar metin eru áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar.

Núpahraun, sem verður fyrir talsverðu raski vegna ýmissa framkvæmdaþátta, nýtur einnig sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Skipulagsstofnun telur að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir verði verulega neikvæð og telur að í ljósi þess sem rakið er hér að framan þurfi að skoða vel hvort það rask á Skaftáreldahrauni sem virkjuninni fylgi sé ásættanlegt þegar kemur að frekari skipulagsgerð vegna framkvæmdaáformanna og áður en kemur að því að veita leyfi fyrir fyrirhugaðri framkvæmd.

Neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist

Sjónræn áhrif framkvæmdanna munu hafa bein áhrif á upplifun af svæðinu og eru fyrirhugaðar framkvæmdir að mati Skipulagsstofnunar líklegar til að hafa neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu þar sem upplifun ferðamanna kemur til með að breytast á svæðinu. Óbyggðir landsins eru mikilvæg auðlind fyrir ferðaþjónustu, bæði sem áfangastaður ferðamanna og sem ímynd Íslands. Með hliðsjón af þessu telur Skipulagsstofnun að framkvæmdin sé líkleg til að hafa talsverð neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist.

Framkvæmdir á skjön við Landsskipulagsstefnu

Fyrirhuguð virkjun er á svæði þar sem engin mannvirki eru fyrir og lítil sem engin ummerki eru um rask af mannavöldum. Framkvæmdirnar kæmu til með að skerða óbyggð víðerni að hluta innan marka miðhálendis Íslands. Samkvæmt Landsskipulagsstefnu 2015-2026 skal sérkennum miðhálendisins og náttúrugæðum viðhaldið meðal annars með verndun víðerna og landslagsheilda. Þótt umrædd ákvæði Landsskipulagsstefnu eigi við miðhálendi Íslands telur Skipulagsstofnun að sambærileg sjónarmið eigi við um áhrifasvæði fyrirhugaðrar virkjunar í Hverfisfljóti neðan miðhálendismarkanna, vegna nálægðar þess við miðhálendið og yfirbragðs þess sem óraskaðs svæðis. Framkvæmdin mun þannig hafa verulega neikvæð áhrif á landslag og víðernisupplifun á einstöku svæði.

Skipulagsstofnun tekur undir það sem fram hefur komið í athugasemdum við frummatsskýrslu framkvæmdaraðila, að fyrirhugaðar framkvæmdir komi til með að raska sérstæðri landslagsheild og breyta ásýnd óraskaðs svæðis verulega vegna ýmissa mannvirkja, auk þess sem hluta ársins verða talsverðar ásýndarbreytingar á svæðinu vegna skerts rennslis á 2,5 km kafla árfarvegarins.

Hönnun lágmarki inngrip í landslag

Framkvæmdasvæðið mun taka á sig yfirbragð iðnaðarsvæðis að framkvæmdum loknum. Stofnunin telur að virkjun með tilheyrandi mannvirkjum sem raska varanlega náttúrulegu umhverfi setji þær kröfur á framkvæmdaraðila að öll hönnun og útfærsla framkvæmdarinnar, sem og tilhögun og verklag við jarðrask og uppbyggingu miði að því að halda raski í lágmarki og takmarka sýnileika mannvirkja eins og frekast er unnt.

Veikleikar rammaáætlunar

Áform um virkjun Hverfisfljóts við Hnútu eiga sér nokkra sögu frá því að fyrst var tilkynnt til Skipulagsstofnunar um 2,5 MW virkjun á svæðinu árið 2006. Árið 2008 tók Skipulagsstofnun ákvörðun um matsáætlun um allt að 15 MW virkjun. Í umhverfismatsferlinu hafa áform framkvæmdaraðila breyst á þann veg að í matsskýrslu er gert ráð fyrir rúmlega 9 MW virkjun.

Allir virkjunarkostir, 10 MW og stærri, sæta heildstæðri greiningu og mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Í rammaáætlun fer fram mikilvæg greining og samanburður á fýsileika ólíkra virkjunarkosta á víðum grundvelli. Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar og forsaga hennar sýna veikleika þess að miða við uppsett afl sem viðmið um það hvaða framkvæmdir skulu teknar fyrir í rammaáætlun. Umfang fyrirhugaðar 9,3 MW virkjunar í Hverfisfljóti er að mestu sambærilegt fyrri áformum um 15 MW virkjun. Um er að ræða framkvæmd sem mun að mati Skipulagsstofnunar hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif og tilefni hefði verið til að meta með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun.

Varðandi nánari umfjöllun um umhverfisáhrif virkjunar í Hverfisfljóti vísast til niðurstaðna í 3. kafla álitsins og framkvæmdatilhögunar, mótvægisaðgerða og vöktunar sem gerð er grein fyrir í matsskýrslu.