Fréttir


  • Af panelumræðum á Umhverfismatsdeginum 2021

6.9.2021

Ný löggjöf rædd á Umhverfismatsdegi

Umhverfismatsdagurinn 2021

Umhverfismatsdagurinn, árlegt málþing Skipulagsstofnunar um umhverfismat, var haldinn miðvikudaginn 1. september og var yfirskrift dagsins að þessu sinni Árangursríkt og skilvirkt umhverfismat. Var kastljósinu einkum beint að nýjum lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem tóku gildi þennan sama dag. Lögin sameina í einn lagabálk eldri lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og umhverfismat áætlana og er ætlað að auka skilvirkni umhverfismats og tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila í umhverfismatsferlinu.

Í erindunum var vikið að helstu nýmælum nýju laganna og fjallað um breytingar sem þau fela í sér. Fjallað var um vinnu við mótun nýrrar reglugerðar um umhverfismat framkvæmda og áætlana og undirbúning Skipulagsgáttar, landfræðilegrar gagna- og samráðsgáttar um skipulag, umhverfismat og leyfisveitingar, sem áætlað er að taka í notkun fyrir árslok 2022. Miklar vonir eru bundnar við Skipulagsgáttina, sem kemur til með að verða bylting varðandi aðgengi að upplýsingum um skipulag og umhverfismat og möguleika til þátttöku. Auk þess var sagt frá nýlegri rannsókn sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Skipulagsstofnun um samráð við almenning um skipulag og framkvæmdir. Þar kom skýrt fram að almenningur vill hafa tækifæri til að hafa áhrif á skipulag síns nærumhverfis.

Meðal nýmæla nýju laganna er ákvæði um svokallað forsamráð framkvæmdaraðila, Skipulagsstofnunar, sveitarstjórna og annarra leyfisveitenda um ferli og tilhögun umhverfismatsvinnunnar hverju sinni. Ákvæðið byggist á fyrirmynd í finnsku umhverfismatslögunum. Á Umhverfismatsdeginum flutti Seija Rantakallio, frá umhverfisráðuneyti Finnlands, erindi um tilhögun og reynslu af forsamráði.

Að loknum erindum fóru fram pallborðsumræður þar sem ræddar voru ýmsar hliðar nýrra laga. Mátti greina þar góðan samhljóm um þau tækifæri sem felast í nýju lögunum til að einfalda ferli, auka skilvirkni og bæta samráð. Jafnframt var lögð áhersla á mikilvægi þess að öll gögn sem stjórnvöld og framkvæmdaraðilar leggja fram í umhverfismatsferlinu séu skýr og aðgengileg.

Umhverfismatsdagurinn fór fram á Nauthóli og var einnig streymt á vefnum og var þátttakan með besta móti. Glærur fyrirlesara má nálgast hér og upptaka af viðburðinum er aðgengileg á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar