Fréttir


  • Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður

10.7.2020

Tillaga að eldissvæðum vegna fiskeldis í Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði

Kynningartími til 14. ágúst 2020

Hafrannsóknastofnun hefur sent Skipulagsstofnun til kynningar í samræmi við 4. gr. a í lögum um fiskeldi, tillögu sína að afmörkun eldissvæða fyrir fiskeldi í Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Ákvörðun Hafrannsóknastofnunar um eldissvæði er forsenda þess að sjávarútvegsráðherra geti úthlutað svæðum til fiskeldis í sjó.

Með breytingum á lögum um fiskeldi sem tóku gildi árið 2019 er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun ákveði eldissvæði í sjó á grundvelli burðarþols og bestu heildarnýtingar mögulegra eldissvæða. Jafnframt skal taka tillit til strandsvæðisskipulags við ákvörðun um eldissvæði, ef það liggur fyrir.

Ef ekki liggur fyrir strandsvæðisskipulag á því svæði sem um ræðir, skal Skipulagsstofnun kynna tillögu Hafrannsóknastofnunar að eldissvæðum og gefa þeim sem kjósa kost á að skila inn athugasemdum við tillöguna, áður en Skipulagsstofnun veitir umsögn til Hafrannsóknastofnunar um hana. Ekki liggur fyrir strandsvæðisskipulag í Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði, en unnið er að slíku skipulagi fyrir Austfirði.

Við kynningu tillögunnar gefst stjórnvöldum aðliggjandi sveitarfélaga og þeim sem búa yfir þekkingu á náttúrufari og nýtingu á svæðinu tækifæri til að koma á framfæri upplýsingum um aðstæður og starfsemi á svæðinu sem mikilvægt er að hafa í huga, áður en ákvörðun er tekin um afmörkun eldissvæða.

Allir geta kynnt sér tillögu Hafrannsóknastofnunar að eldissvæðum í Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði og lagt fram athugasemdir. Þær skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 14. ágúst 2020 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á hafskipulag@skipulag.is. Skipulagsstofnun gefur í kjölfarið umsögn til Hafrannsóknastofnunar, þar sem gerð er grein fyrir þeim athugasemdum sem borist hafa.

Tillaga Hafrannsóknastofnunar að eldissvæðum í Fáskrúðsfirði

Tillaga Hafrannsóknastofnunar að eldissvæðum í Fáskrúðsfirði - mynd

Tillaga Hafrannsóknastofnunar að eldissvæðum í Stöðvarfirði

Tillaga Hafrannsóknastofnunar að eldissvæðum í Stöðvarfirði - mynd